ÍSAM tapaði 741 milljón króna árið 2019. Til samanburðar nam tapið 506 milljónum króna árið áður. Á síðustu þremur árum hefur ÍSAM tapað 1,55 milljörðum króna. Eigið fé fyrirtækisins var 1,1 milljarður króna og eiginfjárhlutfallið var sex prósent við árslok. Þetta kemur fram í ársreikningi.

Kristinn, sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, keypti ÍSAM árið 2014. Kaupverðið var trúnaðarmál.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir nam 322 milljónum króna árið 2019 til samanburðar við 155 milljón króna tap á þann mælikvarða árið áður.

Tekjur ÍSAM jukust um fimm prósent á milli ára og námu 13,3 milljörðum króna árið 2019. Fyrirtækið á meðal annars Mylluna og Fastus og er með umboð fyrir Gillette, Hersheys, BKI og fleiri vörumerki.

Fyrirtækið tók meðal annars víkjandi lán fyrir 220 milljónir króna á síðasta ári. Víkjandi lán fara aftast í kröfuhafaröðina ef fyrirtæki geta ekki greitt öllum sem eiga kröfu á þau. Þess vegna bera þau hærri vexti en önnur lán.

Árið 2018 var hlutafé aukið um 500 milljónir króna og tekið nýtt víkjandi lán fyrir 300 milljónir króna.