Rekstur ÍSAM, sem stefnt er að sameina við Ó. Johnson & Kaaber og Sælkeradreifingu, hefur skilað tapi frá árinu 2017 til 2019. Ársreikningur fyrir árið 2020 er ekki til. Árið 2017 nam tapið 301 milljón króna, árið 2018 506 milljónum króna og árið 2019 741 milljón króna, samanlagt um 1,5 milljarðar króna.

Guðbjörg Matthíasdóttir og fjölskylda keypti ÍSAM árið 2014 sem er með umboð fyrir Pampers, Gillette, Ariel, Pringles, Always, BKI, St. Dalfour, Hershey‘s og fleiri vörumerki.

Eigið fé ÍSAM var 1,1 milljarður króna við árslok 2019. Fram hefur komið í fréttum að árið 2018 var hlutafé aukið um 500 milljónir króna.

Rekstur hinna félaganna gengur mun betur. Ó. Johnson & Kaaber hagnaðist um 65 milljónir króna árið 2019 og velti um 3,5 milljörðum króna. Arðsemi eiginfjár var 15 prósent og eiginfjárhlutfallið 34 prósent. Eigið fé félagsins var 457 milljónir króna við lok árs 2019.

Sælkeradreifing hagnaðist um 71 milljón króna árið 2019. Arðsemi eignfjár var ellefu prósent og eiginfjárhlutfallið 84 prósent. Eigið fé félagsins var 653 milljónir króna við árslok 2019.

Systkinin Ólafur Johnson og Helga Guðrún Johnson eiga samanlagt 76 prósenta hlut í Ó. Johnson & Kaaber og Sælkeradreifingu.

Fram kemur í tilkynningu að fyrirhuguð sameining nái eingöngu til heildsöluhluta fyrirtækjanna þriggja en ekki framleiðslufyrirtækja á þeirra vegum. Um er að ræða Nýju kaffibrennslunni, Kaffitár, Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna.