Hermann Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSAM, segir að ekkert hafi breyst með samþykki nýrra kjarasamninga. Fyrirtækið standi við þær hækkanir sem boðaðar höfðu verið. Hann segir hækkanirnar ekki hafa verið boðaðar til að fella samningana.

„Það hefur ekkert breyst þótt að samningarnir hafi verið samþykktir. Þetta var ekki hótun um það að það ætti að fella þá. Forsendur hafa ekki breyst við samþykkt samninganna,“ segir Hermann Stefánsson, forstjóri ÍSAM, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hermann sendi tölvupóst síðasta föstudag á alla viðskiptavini fyrirtækisins þar sem kom fram að allar vörur fyrirtækisins muni hækka um 3,9 prósent og að allar innfluttar vörur muni hækka um 1,9 prósent.

Hann segir að þau hafi skoðað margar leiðir til að bregðast við hækkandi kostnaði en að í íslenskum iðnaði séu ekki margar leiðir til að bregðast við. Hjá ÍSAM starfa um 400 einstaklingar og þau hafi ekki viljað fækka þeim til að bregðast við auknum kostnaði.

„Það er að hækka söluverðið eða hagræða. Hagræðingar enda á yfirleitt á einum stað, í fækkun starfsfólks og við höfum ekki viljað fara þá leið. Við erum búin að standa í miklum hagræðingaraðgerðum,“ segir Hermann.

Hefur áhyggjur beinist aðgerðir sérstaklega að ÍSAM

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af hörðum viðbrögðum sem stéttarfélögin hafa boðað við hækkununum og að viðskiptavinir ætli að sniðganga vörurnar játar hann því, ef aðgerðirnar beinist sérstaklega að þeim.

„Ef aðgerðirnar beinast sérstaklega að okkar félagi þá hef ég áhyggjur af því,“ segir Hermann.

Hann segir að hækkunin nái ekki til allra þeirra vara, heldur sé það misjafnt eftir vöruflokkum. Að meðaltali sé um að ræða tveggja prósenta hækkun.

„Mesta hækkunin er þar sem að staðan okkar erfiðustu. Í ORA og Frón þar sem við erum í nauðvörn að halda þeim iðnaði hér á landi,“ segir Hermann.

Hann segir að samkeppnisstaða íslenskrar framleiðslu sé mjög erfið gagnvart erlendri framleiðslu og því sé iðnaður hérlendis erfiður. Kostnaður sé hár á framleiðslu og stærsti hluti þess séu launin. Því hafi mikið af framleiðslu verið færð úr landi, eins og prentun bóka, kassagerð og plastpokagerð.

„Íslenskur iðnaður er í nauðvörn og er ekki samkeppnishæfur við innfluttar vörur. Þar er staðan erfiðust hjá okkur,“ segir Hermann.

ÍSAM, heildsölu- og framleiðslufyrirtæki, á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna og er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur.

ÍSAM er ekki eina fyrirtækið sem hefur boðað hækkanir í kjölfar nýrra kjarasamninga. Ömmubakstur/Gæðabakstur hefur einnig boðað um 6 prósenta hækkun á sínum vörum. Framkvæmdastjóri sagði um helgina að þrír þættu hefðu áhrif á hækkanir, það væru hækkun á verði hveitis, breytt gengi og nýir kjarasamningar.