Írska útgerðin stendur þessa stundina fyrir mótmælum gegn samkomulagi Bretlands og Evrópusambandsins um sjávarútvegsmál. Írar telja sig hafa farið halloka við gerð samkomulagsins sem gert var í kjölfar þess að Bretland gekk úr Evrópusambandinu. BBC greinir frá.

Nokkur fjöldi togskipa hefur safnast saman í höfninni í Dublin, höfuðborg Írlands, og ætla að sigla spöl í samfloti til að sýna samstöðu og mótmæla samkomulaginu.

Evrópusambandið samþykkti að gefa eftir nokkuð magn af þeim kvóta sem evrópskt fiskiskip geta sótt í efnahagslögsögu Breta til baka til Bretlands.

Írum reiknast svo til að þetta munu minnka aflaheimildir sinna skipa um 15 prósent, sem þýðir aflaverðmæti upp á um 43 milljónir punda, eða sem nemur tæplega 7,4 milljörðum íslenskra króna á ári að fimm árum liðnum.

Smátt og smátt verður dregið úr aflaheimildum evrópskra skipa í bresku lögsögunni á næstu fimm árum, en stærsti niðurskurðurinn á sér stað strax.

Stærsti skellurinn fyrir Íra er lægri makrílkvóti, en á næstu árum munu írskar útgerðir þurfa að skila um fjórðungi af öllum sínum makrílkvóta til Breta, sem í heild skilar írskum útgerðum tæplega 100 milljónum punda á ári í aflaverðmæti. Um fjórðungur þess rennur til Breta á næstu fimm árum.