ÍRIS fjarskiptastrengurinn er orðinn virkur og kominn í notkun. Sæstrengurinn er sá þriðji sem tengir Ísland við önnur lönd og er tengdur við Dublin á Írland. Með tilkomu hans er fjarskiptaöryggi Íslands sagt hafa aukist tífalt auk þess ýmsar skýjaþjónustur og samfélagsmiðlar eiga að vera hraðvirkari.
Framkvæmdastjóri Farice, sem vann að því að koma strengnum upp, segir tilkomu strengsins auka fjarskiptaöryggi Íslands tífalt.
„Áður en þessi strengur er tengdur erum við tengd við umheiminn með tveimur tengingum,“ segir Þorvarður Sveinsson og að tilkoma strengsins auki
„Samfélagið okkar í dag er svakalega háð stafrænum fjarskipum við útlönd. Það er eiginlega ómögulegt að ímynda sér samfélagið okkar ef tækni er ekki að virka. Þess vegna skiptir þetta svo miklu máli og þess vegna lögðum við áherslu á að fá strenginn upp, til að auka öryggi,“ segir Þorvarður.

Ísland sér á báti
Spurður um öryggi annarra í samanburði við okkur segir hann erfitt að finna land sem hægt sé að bera okkur saman við að þessu leyti, vegna staðsetningar okkar.
„Ísland er dálítið sér á báti. Við erum eyja langt úti í Atlantshafi. 1.500 kílómetrar í allar áttir. Samfélagið er mjög þróað en fámennt og helstu skýjaþjónustur sem við notum eins og Microsoft 365 eru hýst i gagnaverum í Evrópu og því þurfum við á þessu öryggi að halda. Aðrar eyjur, eins og Malta sem dæmi, eru mun nær meginlandinu. Það er helsti munurinn. Við erum miklu háðari þessu og kostnaðurinn er meiri.“
Strengurinn liggur á sjávarbotni frá Þorlákshöfn og til Galway á Írlandi. Botninn er að sögn Þorvarðar plægður niður að 1.500 metra dýpi til að verja hann en í meira dýpi liggur hann á sjávarabotninum.
Kostnaðurinn við að koma strengnum niður var 50 milljarðar evra eða um 7,6 milljarðar íslenskra króna og segir Þorvarður mjög ánægjulegt að hafa bæði tekist að koma honum niður á réttum tíma og að hafa haldið sig innan kostnaðaráætlunnar.
„Þetta er stórt verkefni og við erum mjög stolt af því að náð að halda okkur við bæði kostnaðar- og tímaáætlun.“

Verkefnið um strenginn hefur verið í þróun síðustu fjögur árin. Verkefnið hófst með undirbúningsvinnu í upphafi árs 2019 þar sem fýsilegir lendingarstaðir og leið á sjávarbotni var valin. Sjávarbotnsrannsóknir fóru fram 2020 til 2021 og var fjarskiptastrengurinn var framleiddur á árunum 2021 til 2022.
Lagning strengsins hófst síðasta vor með lendingu strengsins í Þorlákshöfn og tengingu í Galway í ágúst. Prófanir framleiðanda á strengnum fóru fram síðasta haust og var hann afhentur til Farice við athöfn á Írlandi 11. nóvember. Síðan þá hafa tæknimenn Farice unnið að innleiðingu strengsins með tengingum í netkerfi félagsins og við viðskiptavini þess. Þeirri vinnu lauk nú um mánaðamótin og er því strengurinn kominn í notkun og gögn farin að flæða um strenginn.

Upplýsingahraðbraut til Íslands
Meðal þeirra sem nota strenginn er Míla en í tilkynningu frá þeim kemur fram að strengurinn sé orðin hluti af fjarskiptainnviðum og heildarþjónustu Mílu við innlend og erlend fjarskiptafyrirtæki.
„IRIS sæstrengurinn er jafnframt styttri leið til umheimsins en áður hefur verið í boði auk þess sem afkastagetan er umtalsvert meiri. Þetta hefur í för með sér að svartími styttist og þjónusta sem sótt er erlendis frá svo sem skýjaþjónusta af ýmsum toga, Facebook, Twitter, Netflix og fleiri vefir verða hraðvirkari og liprari í notkun,“ segir í tilkynningu Mílu en þau hafa sett upp starfsstöð í Galway til að tryggja enn frekar rekstraröryggi, stytta leiðir vestur um haf og komast nær mikilvægum skýjaþjónustum hýstum á Írlandi eins og Amazon, Google og Microsoft. Míla hefur einnig samtengt alla fjarskiptastaði sína í Evrópu til að bæta öryggi útlandasambanda enn frekar.
„Öruggur rekstur fjarskiptainnviða er ætíð í fyrirrúmi hjá Mílu og því eru þessi tímamót okkur mikið fagnaðarefni. Við óskum jafnframt Farice ehf. og Íslendingum öllum til hamingju með þessa nýju upplýsingahraðbraut til landsins.“