ÍRIS fjar­skipta­strengurinn er orðinn virkur og kominn í notkun. Sæ­strengurinn er sá þriðji sem tengir Ís­land við önnur lönd og er tengdur við Dublin á Ír­land. Með tilkomu hans er fjarskiptaöryggi Íslands sagt hafa aukist tífalt auk þess ýmsar skýjaþjónustur og samfélagsmiðlar eiga að vera hraðvirkari.

Fram­kvæmda­stjóri Farice, sem vann að því að koma strengnum upp, segir til­komu strengsins auka fjar­skipta­öryggi Ís­lands tí­falt.

„Áður en þessi strengur er tengdur erum við tengd við um­heiminn með tveimur tengingum,“ segir Þor­varður Sveins­son og að til­koma strengsins auki

„Sam­fé­lagið okkar í dag er svaka­lega háð staf­rænum fjar­skipum við út­lönd. Það er eigin­lega ó­mögu­legt að í­mynda sér sam­fé­lagið okkar ef tækni er ekki að virka. Þess vegna skiptir þetta svo miklu máli og þess vegna lögðum við á­herslu á að fá strenginn upp, til að auka öryggi,“ segir Þor­varður.

Strengurinn liggur ýmist á sjávarbotni eða á um 1.500 kílómetra dýpi.
Mynd/Farice

Ísland sér á báti

Spurður um öryggi annarra í saman­burði við okkur segir hann erfitt að finna land sem hægt sé að bera okkur saman við að þessu leyti, vegna stað­setningar okkar.

„Ís­land er dá­lítið sér á báti. Við erum eyja langt úti í At­lants­hafi. 1.500 kíló­metrar í allar áttir. Sam­fé­lagið er mjög þróað en fá­mennt og helstu skýja­þjónustur sem við notum eins og Micros­oft 365 eru hýst i gagna­verum í Evrópu og því þurfum við á þessu öryggi að halda. Aðrar eyjur, eins og Malta sem dæmi, eru mun nær megin­landinu. Það er helsti munurinn. Við erum miklu háðari þessu og kostnaðurinn er meiri.“

Strengurinn liggur á sjávar­botni frá Þor­láks­höfn og til Galway á Ír­landi. Botninn er að sögn Þor­varðar plægður niður að 1.500 metra dýpi til að verja hann en í meira dýpi liggur hann á sjávar­a­botninum.

Kostnaðurinn við að koma strengnum niður var 50 milljarðar evra eða um 7,6 milljarðar íslenskra króna og segir Þor­varður mjög á­nægju­legt að hafa bæði tekist að koma honum niður á réttum tíma og að hafa haldið sig innan kostnaðar­á­ætlunnar.

„Þetta er stórt verk­efni og við erum mjög stolt af því að náð að halda okkur við bæði kostnaðar- og tíma­á­ætlun.“

Hér má sjá kort af þremur sæstrengjum Íslendinga. Iris, Danice og Farice.
Mynd/Míla

Verk­efnið um strenginn hefur verið í þróun síðustu fjögur árin. Verk­efnið hófst með undir­búnings­vinnu í upp­hafi árs 2019 þar sem fýsi­legir lendingar­staðir og leið á sjávar­botni var valin. Sjávar­botns­rann­sóknir fóru fram 2020 til 2021 og var fjar­skipta­strengurinn var fram­leiddur á árunum 2021 til 2022.

Lagning strengsins hófst síðasta vor með lendingu strengsins í Þor­láks­höfn og tengingu í Galway í ágúst. Prófanir fram­leiðanda á strengnum fóru fram síðasta haust og var hann af­hentur til Farice við at­höfn á Ír­landi 11. nóvember. Síðan þá hafa tækni­menn Farice unnið að inn­leiðingu strengsins með tengingum í net­kerfi fé­lagsins og við við­skipta­vini þess. Þeirri vinnu lauk nú um mánaða­mótin og er því strengurinn kominn í notkun og gögn farin að flæða um strenginn.

Myndin er tekin í Þorlákshöfn þegar strengurinn var lagður þar.

Upplýsingahraðbraut til Íslands

Meðal þeirra sem nota strenginn er Míla en í til­kynningu frá þeim kemur fram að strengurinn sé orðin hluti af fjar­skipta­inn­viðum og heildar­þjónustu Mílu við inn­lend og er­lend fjar­skipta­fyrir­tæki.

„IRIS sæ­strengurinn er jafn­framt styttri leið til um­heimsins en áður hefur verið í boði auk þess sem af­kasta­getan er um­tals­vert meiri. Þetta hefur í för með sér að svar­tími styttist og þjónusta sem sótt er er­lendis frá svo sem skýja­þjónusta af ýmsum toga, Face­book, Twitter, Net­flix og fleiri vefir verða hrað­virkari og liprari í notkun,“ segir í til­kynningu Mílu en þau hafa sett upp starfs­stöð í Galway til að tryggja enn frekar rekstra­r­öryggi, stytta leiðir vestur um haf og komast nær mikil­vægum skýja­þjónustum hýstum á Ír­landi eins og Amazon, Goog­le og Micros­oft. Míla hefur einnig sam­tengt alla fjar­skipta­staði sína í Evrópu til að bæta öryggi út­landa­sam­banda enn frekar.

„Öruggur rekstur fjar­skipta­inn­viða er ætíð í fyrir­rúmi hjá Mílu og því eru þessi tíma­mót okkur mikið fagnaðar­efni. Við óskum jafn­framt Farice ehf. og Ís­lendingum öllum til hamingju með þessa nýju upp­lýsinga­hrað­braut til landsins.“