IP Studium Reykjavík, fjárfestingafélag Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur, tapaði 202 milljónum króna fyrir skatta árið 2020 samanborið við 442 milljón króna hagnað eftir skatta árið áður.

Fram kemur í nýbirtum ársreikningi að rekstur félagsins hafi mótast umtalsvert af áhrifum af Covid-19 heimsfaraldrinum. Leigutekjur drógust saman um 78 prósent og námu 27 milljónum króna. Áhrif af rekstri dóttur- og hlutdeildarfélaga leiddu til tólf milljón króna taps árið 2020 en árið áður lagði sá þáttur til 446 milljón króna til rekstarins.

Eigið fé IP Studium Reykjavík nam 2,6 milljörðum króna árið 2020 en eignirnar voru 5,5 milljarðar króna. Félagið á meðal annars Hverfisgötu 8 til 10, sem hýsir 101 hótel, og er fasteignin bókfærð á 1,8 milljarða króna og 43 prósenta hlut í 365 sem bókfærður er á 1,6 milljarða króna. Ingibjörg Stefanía á 99,8 prósenta hlut í 365, samkvæmt Fyrirtækjaskrá. Eignir 365 voru bókfærðar á 6,5 milljarða árið 2020 og eigið fé 3,4 milljarðar króna. Það félag á meðal annars í Streng sem fer með meirihluta í Skeljungi.