Sjóður í stýringu eignastýringararms Investec átti um mitt þetta ár tæplega hálfs prósents hlut í Marel, samkvæmt árshlutauppgjöri félagsins. Þannig var sjóðurinn European Equity Fund skráður fyrir rúmlega þremur milljónum hluta að nafnverði í íslenska fyrirtækinu en miðað við núverandi hlutabréfaverð Marels er sá hlutur metinn á nærri 1,8 milljarð króna.

Investec, sem er með eignir í stýringu að jafnvirði um 145 milljarða Bandaríkjadala, kom því inn í hluthafahóp Marels í útboði félagsins sem lauk í júní þegar 100 milljónir nýrra hluta voru seldar á genginu 3,7 evrur á hlut, jafnvirði um 51 milljarð króna á núverandi gengi.

Aðrir erlendir sjóðir sem fjárfestu í Marel í útboðinu, og Fréttablaðið hefur áður upplýst um, eru meðal annars bandaríska sjóðastýringarfyrirtækið Baron Capital, Vanguard Capital og Columbia Threadneedle.

Samnlagður eignarhlutur alþjóðlegra fjárfesta í hluthafahópi Marels hefur aukist úr 3 prósentum í 30 prósent frá því í ársbyrjun 2018. Hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um 57 prósent frá áramótum og nemur markaðsvirði þess um 448 milljörðum króna.