Mikil aukning hefur verið á innlendri netverslun en Pósturinn greinir frá því að hún standi nú í um tuttugu prósentum. Töluverð eftirspurn hefur verið eftir heimkeyrslu auk notkun póstboxa þar sem að þær þjónustuleiðir takmarka útbreiðslu COVID-19 frekar en aðrar.

“Við erum strax farin að sjá töluverða aukningu í netverslun og búumst við að sjá jafnvel enn meiri aukningu á komandi vikum. Heimkeyrslan okkar er gríðarlega öflug þjónusta sem getur hjálpað mikið í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu,“ segir Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Póstsins, í tilkynningu um málið.

Pósturinn hvetur fólk til að kynna sér þjónustuleiðirnar vel svo hægt sé að koma í veg fyrir frekari smit. „Við viljum leggja okkar að mörkum á þessum óvenjulegu tímum. Við ætlum okkur svo sannarlega að þjónusta viðskiptavini okkar vel en umfram allt viljum við veita eins örugga þjónustu og við mögulega getum.”