Heimilin í landinu hafa aldrei verið með meiri óbundinn sparnað í krónum talið en í lok júlí. Óbundinn sparnaður heimila hefur aukist um ríflega 80 milljarða króna á þessu ári á sama tíma og meginvextir Seðlabanka Íslands hafa lækkað um tvö prósentustig. Þessar fjárhæðir geta leitað í annan farveg þegar óvissa í efnahagsmálum minnkar.

„Ef það þarf ekki að ganga á sparnaðinn til að halda uppi neyslu má sjá fyrir sér að hann muni á endanum leita í áhættusamari fjárfestingar þar sem raunávöxtunarmöguleikar innlánsreikninga eru afar takmarkaðir eins og er, og gefa neikvæða raunávöxtun eftir vaxtalækkunarferli Seðlabankans,“ segir Valdimar Ármann, sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arctica Finance, í samtali við Markaðinn.

Veltiinnlán íslenskra heimila, það er innistæður á veltireikningum, námu 192 milljörðum króna í lok júlí og höfðu þá aukist um 39 milljarða frá byrjun árs. Óbundin innlán námu 417 milljörðum króna og höfðu aukist um tæplega 42 milljarða yfir sama tímabil. Samtals námu því óbundnar innistæður íslenskra heimila 609 milljörðum króna í lok júlí og aukning frá áramótum nam 81 milljarði.

Neikvæð raunávöxtun óbundinna innlána er töluverð. Samkvæmt vaxtatöflum viðskiptabankanna voru nafnvextir á veltireikningum einungis 0,05 prósent og óbundnir bankareikningar, miðað við innlán sem eru innan við milljón krónur, báru einungis 0,15 prósenta vexti.

Verðbólga mældist 2,5 prósent á öðrum fjórðungi ársins en var komin í 3 prósent í júlí. Samkvæmt síðustu spá Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir að verðbólga verði í kringum 3 prósent það sem eftir lifir árs. Neikvæð raunávöxtun óbundinna innlána verður því á bilinu 2,85 til 2,95 prósent á ársgrundvelli ef vextir og verðbólga verða áfram á sömu slóðum.

Valdimar Ármann, sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arctica Finance.
Fréttablaðið/Stefán

Aukning í óbundnum innlánum á sama tíma og vextir hafa lækkað úr þremur prósentum niður í eitt prósent getur átt sér nokkrar skýringar að sögn Valdimars. Hann nefnir að peningamagn í umferð hafi verið aukið til þess að bregðast við samdrætti í hagkerfinu.

„Aukin óvissa verður til þess að heimili draga saman seglin og auka lausafjárstöðu til að mæta áfalli, til dæmis atvinnumissi. Þá hefur verið umtalsvert um úttektir úr séreignarsparnaði sem má einmitt sjá fyrir sér að fari fyrst um sinn inn á innlánsreikninga,“ segir Valdimar.

Þá hefur dregið umtalsvert úr einkaneyslu miðað við tölur um kortaveltu og er líklegt að hún verði áfram veik að sögn Valdimars.

„Einnig er athyglisvert að sjá hvernig samsetning neyslunnar hefur breyst. Neysla innanlands er að jafna sig en á móti er mun minni neysla erlendis. Það er því ákveðinn tilflutningur á neyslu Íslendinga í ferðalögum erlendis inn í íslenska hagkerfið sem má sjá í aukinni neyslu innanlands og auknum sparnaði,“ segir Valdimar.

„Einhverjir munu kannski ekki átta sig almennilega á ávöxtuninni fyrr en þeir fá áramótayfirlitið.“

Lágvaxtaumhverfið er nýr veruleiki á Íslandi og krefst þess að samsetning eignasafna taki breytingum. Þannig er fyrirséð að færsla eigi sér stað úr áhættuminni eignum yfir í áhættumeiri eignir með tíð og tíma. Það á einnig við um heimilin.

„Á meðan óvissan varir er ekki óeðlilegt að fólk vilji hafa beint aðgengi að sparnaði sínum en þegar við förum að sjá til lands þá geta þessir fjármunir leitað í fjárfestingar, til dæmis fasteignir eða hlutabréf, ef ekki þarf að nota þá til þess að halda uppi neyslu,“ segir Valdimar.

„Einhverjir munu kannski ekki átta sig almennilega á ávöxtuninni fyrr en þeir fá áramótayfirlitið. Það er fyrst núna sem tólf mánaða ávöxtun er að fara hratt niður og eftir tólf mánuði verður hún enn lakari. Þetta tekur tíma að síast inn.“