Sæl­gæt­is­fram­leiðand­inn Kólus hef­ur ákveðið að innkalla Risa-Þrist frá Sambó í 50 gramma umbúðum. Ástæðan er sögð vera sú að aukabragð hafi borist úr plastumbúðum í vöruna.

Í vikunni hafa fjöldi meðlima í Facebook hópnum Nammitips kvartað yfir því að dularfullt málmbragð eða lykt sé að finna af Risaþristum. Líkt og fjallað var um á vef Hringbrautar.

Þau sem lentu í þessu kváðust mörg hver hafa hent sælgætinu vinsæla tafarlaust í ruslið eftir að hafa fundið þetta óvænta bragð.

Mögulega fleiri tilvik

Um er að ræða Risaþrist með strikamerkinu 5690649006652 sem var með best fyrir dagsetninguna 16. nóvember 2021 og 8. janúar 2022. Risaþristunum var dreift í verslanir Bónus, Krónunnar, Hagkaupa, Samkaupa, N1, Olís og Skeljungs.

Talið er mögulegt að tilvikin geti verið fleiri að því er segir í tilkynningu frá Kólus.

Neytendur sem keypt hafa Risa Þrist með framangreindum dagsetningum mega skila honum þangað sem hann var keyptur eða til Kólus, Tunguhálsi 5. Kólus ehf biður neytendur velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.