Júmbó hefur nú innkallað kjúklinga-kebab samloku sem óvart var merkt vegan. Samlokurnar fóru í verslanir í gær, en bílstjórar fyrirtækisins vinna nú að því að sækja þær í verslanir.

„Þetta eru augljós mistök hjá starfsmanni í framleiðslu“ segir Helga Margrét Pálsdóttir, gæðastjóri hjá Júmbó, í samtali við Fréttablaðið.

Hún segir að áður en kebab-samlokan fór í pökkun hafi verið að pakka falafel-samloku sem er vegan.

„Pakkinn er eins undir og vegan merkið er límt eftir á. Þetta er starfsmaður sem var ekki alveg vakandi,“ segir Helga.

Hún segir að strax og þau hafi verið látin vita hafi þau innkallað samlokurnar úr verslunum og sótt þær. Þau viti um fjögur tilvik sem fóru svona. Hún segir að hún bíði eftir bílstjóranum sem er að sækja samlokurnar og þá muni hún vita hversu margar samlokur nákvæmlega voru merktar vitlaust.

„En það er vissulega aldrei með ásetningi að merkja eitthvað vegan sem ekki er það. Við erum að leggja okkur fram að framleiða vegan vörur,“ segir Helga en fyrirtækið framleiðir einnig nokkrar vegan samlokur sem hafa verið mjög vinsælar meðal grænkera.

„Okkur þykir þetta mjög leiðinlegt. Því miður fór þetta út svona,“ segir Helga.