Innistæða er fyrir þeim hækkunum sem orðið hafa á hlutabréfamarkaði og í mörgum tilfellum gott betur. Þetta segir Gísli Halldórsson, sjóðsstjóri Íslandssjóða í viðtali við sjónvarpsþáttinn Markaðinn sem sýndur er klukkan níu í kvöld á Hringbraut.

Hlutabréf lækkuðu skarpt þegar COVID-19 breiddist um heiminn en nokkru síðar hækkuðu þau hratt. Frá COVID-19 hafa íslensk fyrirtæki í iðnaði hækkað um 59 prósent, fjármálafyrirtæki um 56 prósent, tækni- og fjarskiptafyrirtæki um 50 prósent, sjávarútvegsfyrirtæki um 46 prósent og smásalar um 13 prósent.

„Ef við lítum lengra aftur í tímann þá hefur íslenski markaðurinn setið eftir miðað við þá erlendu,“ segir Gísli.

Hann bendir á að enn sé óvissa uppi um hvernig muni ganga að bólusetja gegn COVID-19. „Við gætum fengið bakslag,“ segir Gísli.

Fram hefur komið í Markaðnum að lægra vaxtastig leiði hærri verðmats fyrirtækja og að fé streymi á hlutabréfamarkað í leit að ávöxtun. Verðbóga er hærri en sem nemur ávöxtun á innlánsreikningum.

„Íslenskir sparifjáreigendur hafa verið ofdekraðir áratugum saman. Nú tekur raunveruleikinn við. Þú færð ekki ávöxtun án þess að taka áhættu,“ segir Gísli. Vísar í að vaxtastig á Íslandi hafi lengi verið hátt ólíkt því sem tíðkast hefur erlendis.

Hann vekur athygli á því að einungis tvö fyrirtæki af 19 sem skráð séu í Kauphöllina hafi verið rekin með tapi í heimsfaraldrinum. Samdrátturinn á helstu rekstrarstærðum hafi verið um tíu til 20 prósent en á sama tíma hafi fjármögnunarkjör batnað samhliða stýrivaxtalækkunum.

Athygli vekur að þau fyrirtæki í Kauphöllinni sem rekin eru með tapi um þessar mundir, Icelandair og Sýn, glímdu við rekstrarvanda áður en heimsfaraldurinn skall á.