Undanfarin ár hefur fordæmalaus fjölgun erlendra ríkisborgara átt stóran þátt í hagvexti og auðgað íslenskt samfélag. Fólksflutningar til landsins eru í senn afleiðing af góðu efnahagsástandi og orsök hagvaxtar með auknu vinnuafli.

Tvennt er einkum athyglisvert við fjölgunina síðustu ár: 1. Hversu mikil hún er í samhengi við hagvöxt samanborið við síðustu uppsveiflu. 2. Hversu mikil fjölgunin var árið 2019 þrátt fyrir nær engan hagvöxt, en þá fluttu 5.000 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en af landi brott. Er þróun síðustu ára bara byrjunin og fjölgunin komin til að vera?

grafgraf.PNG

Erfitt er að fullyrða um slíkt, enda fer það til dæmis eftir atvinnu- og stjórnmálaástandi hér og erlendis. Þá er óvíst hvernig hnattræn hlýnun mun hafa áhrif á fólksflutninga. Við gætum samt verið að horfa á hraðari breytingu á íslensku samfélagi en margir kannski átta sig á og ef síðustu ár hafa forspárgildi er raunhæft að íbúar landsins nálgist 500.000 fyrir 2040. Ef kröftug fjölgun erlendra ríkisborgara heldur áfram í ár, þrátt fyrir stöðnun í hagkerfinu og fækkun starfa, er það vísbending um að við stefnum þangað.

Höfundur er hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.