Bannið á innflutning hamstra var sett á í fyrra í kjölfar Covid-smita í gæludýrabúð og neyddust stjórnvöld til að svæfa rúmlega 2.000 nagdýr.
Landbúnaðar-, sjávarútvegs- og náttúruverndardeild Hong Kong sagði í samtali við fréttastofuna BBC að þrátt fyrir afléttingu á banninu yrðu hamstrarnir engu að síður skimaðir fyrir veirunni. Talsmaður deildarinnar sagði að einungis þau dýr sem reynast neikvæð fyrir Covid-19 verði seld í gæludýrabúðum borgarinnar.
Stjórnvöld í Hong Kong bönnuðu allan innflutning á hömstrum á síðasta ári eftir að starfsmaður í Little Boss gæludýrabúðinni greindist með Delta-afbrigðið. Í ljós kom að ellefu hamstrar sem höfðu verið fluttir inn frá Hollandi reyndust smitaðir af Covid-19.
Vanessa Barrs, prófessor í dýraheilbrigði við borgarháskólann í Hong Kong, sagði að ákvörðunin um að svæfa hamstrana hefði verið mjög sorgleg á sínum tíma, en búið var að staðfesta smit-tengsl milli hamstra og manna.