Strengur hefur gert yfirtökutilboð í Skeljung sem er 6,6 prósentum hærra en síðasta dagslokagengi síðasta viðskiptadags, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Fjárfestingafélagið er í eigu Sigurðar Bollasonar, Ingibjargar Pálmadóttur og fasteignasalanna Þórarins A. Sævarssonar og Gunnars Sverris Harðarsonar.

Hluthafar Strengs voru áður hluthafar í Skeljungi. Þeir hafa nú gert með sér samkomulag um að leggja hluti sína í Streng. Fyrir vikið mun fjárfestingafélagið eiga 36 prósenta hlut í Skeljungi eða 37 prósent af útistandandi hlutum þegar tekið hefur verið tillit til eigin hluta.

Sigurður Bollason fjárfestir.

Þar sem Strengur mun eignast meira en 30 prósent atkvæðisrétt í Skeljungi hefur myndast tilboðsskylda. Mun öllum hluthöfum Skeljungs því gert yfirtökutilboð innan fjögurra vikna.

RES 9, félag á vegum Sigurðar og eiginkonu hans, Nönnu Björk Arngrímsdóttur og No. 9 Investments Limited, mun eignast 38 prósenta hlut í Streng.

365, félag á vegum Ingibjargar Pálmadóttur, mun eignast 38 prósenta hlut í fjárfestingafélaginu. Eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, er stjórnarformaður Skeljungs.

RPF mun eignast 24 prósenta hlut í Streng. RPF er í jafnri eigu félaga á vegum Þórarins og Gunnars Sverris. Þórarinn situr í stjórn Skeljungs.

Jón Ásgeir Jóhannesson, er stjórnarformaður Skeljungs.

Arion banki og Íslandsbanki hafa verið ráðnir sem umsjónaraðilar með yfirtökutilboðinu.

Jón Skaptason, framkvæmdastjóri 365 Invest, er framkvæmdastjóri Strengs.