Fjárfestingafélagið Indigo Partners mun til að byrja með eignast 49 prósenta hlut í WOW air, gangi kaup félagsins í flugfélaginu eftir. Kjósi Indigo hins vegar að nýta sér breytirétt, sem kveðið er á um í skilmálum lánssamnings félaganna tveggja, gæti það eignast stærri hlut í WOW air.

Þetta kemur fram í bréfi sem Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, skrifaði skuldabréfaeigendum flugfélagsins í dag. Tilkynnt var um það í lok nóvember síðastliðins að náðst hefði samkomulag um fjárfestingu Indigo í WOW air. Vinna við áreiðanleikakönnun stendur enn yfir.

Í bréfi Skúla til eigenda skuldabréfanna kemur fram að fjárfesting Indigo í WOW air verði aðallega í formi láns til tíu ára með breytirétti í hlutafé. Verða vextir af láninu greiddir árlega og þá skulu höfuðstóll og áunnir vextir greiðast í lok lánstímans.

Fjárhæð fjárfestingar Indigo Partners mun jafnframt ráðast af því, eftir því sem fram kemur í bréfi Skúla, hver fjárþörf WOW air verður á meðan rekstri félagsins verður snúið við. Segir hann fjárfestingafélagið hyggjast fjármagna flugfélagið „á fullnægjandi hátt“ á meðan rekstur félagsins verður endurskipulagður.

 „Indigo Partners hefur ítrekað sýnt að þeir eru þolinmóðir langtímafjárfestar, til dæmis með fjárfestingum þeirra í Wizz air, Volaris og Frontier Airlines,“ segir í bréfinu.

Greint var frá því í síðasta mánuði að Indigo Partners hefði hug á því að fjárfesta í WOW air fyrir allt að 75 milljónir dala eða sem jafngildir um 8,8 millörðum króna. Vinna við áreiðanleikakönnun vegna kaupanna stendur sem kunnugt er enn yfir.

Þá greindi WOW air auk þess frá því í um miðjan desembermánuð að floti félagsins yrði skorinn niður úr 20 þotum í 11 og stöðugildum fækkað um 350. Eftir uppsagnirnar munu rúmlega þúsund starfa hjá félaginu.

„Ég vildi óska þess að það væri til önnur leið en stað­reyndin er sú að við verðum að snúa við rekstrinum og koma honum aftur í gott horf áður en við getum hafið upp­bygginguna að nýju,“ sagði Skúli þegar tilkynnt var um niðurskurðinn í síðasta mánuði.

Fjárfesting Indigo Partners er jafnframt háð því að eigendur skuldabréfa WOW air samþykki ákveðnar breytingar á skilmálum bréfanna sem felast meðal annars í því að breytiréttur þeirra að hlutafé í flugfélaginu falli niður. Atkvæðagreiðslu skuldabréfaeigendanna lýkur 17. janúar næstkomandi.

Í bréfi Skúla til eigenda skuldabréfanna segir einnig að Indigo og WOW air ræði enn sín á milli um hvernig skuli fara með víkjandi lán sem Títan fjárfestingafélag, móðurfélag WOW air, hefur veitt flugfélaginu.

Til að mynda komi til greina að breyta láninu í hlutafé áður en kaup Indigo ganga í gegn. Ef láninu verður hins vegar ekki breytt í hlutafé mun það áfram vera víkjandi gagnvart skuldabréfum félagsins, að því er segir í bréfinu.