Samtök markaðsfólks á Íslandi hafa veitt verðlaunin frá árinu 1991 og er markmið þeirra að stuðla að, og verðlauna, fagmennsku í markaðsstarfi fyrirtækja.

Félagsmenn, dómnefnd og stjórn ÍMARK hafa kost á því að senda inn tilnefningar fyrirtækja sem talin eru hafa staðið sig vel í markaðsmálum undanfarin tvö ár, verið áberandi í markaðsmálum á tímabilinu og sannað sýnilegan árangur af markaðsstarfi þeirra.

Tilnefnd fyrirtæki hafa kost á því að sækja um þátttöku í verðlaununum og senda þá inn tilheyrandi gögn sem dómnefnd á vegum ÍMARK fer yfir. Af þeim fyrirtækjum sem senda inn gögn eru tilkynnt fimm efstu fyrirtækin og af þeim mun dómnefnd skera úr um hvert þeirra ber sigur úr bítum og fær titilinn markaðsfyrirtæki ársins.

Viðkomandi fyrirtæki hlýtur nafnbótina í tvö ár þar sem verðlaunin eru veitt annað hvert ár á móti markaðsmanneskju ársins.

Hægt verður að senda inn tilnefningar til og með 13. nóvember næstkomandi. Að tilnefningartímibili loknu mun dómnefnd velja fimm efstu fyrirtækin ásamt því að fyrirtæki fær tækifæri til að kynna sitt markaðsstarf ítarlega fyrir dómnefnd.

Dómnefndin er skipuð fulltrúum úr stjórn ÍMARK, atvinnulífinu og háskólasamfélaginu með þverfaglega þekkingu og reynslu í huga.