Sænski hús­gagna­risinn IKEA er nýjasta fyrir­tækið til að vara við vöru­skorti vegna vanda­mála í að­fanga­keðju fyrir­tækisins. Það gerir ráð fyrir að skortur verði á vörum í verslunum þess í það minnsta ár í við­bót.

Líkt og mörg önnur fyrir­tæki í al­þjóða­við­skiptum hafa vand­ræði við vöru­flutninga, einkum vegna Co­vid-far­aldursins, haft mikil á­hrif á rekstur IKEA. Flutnings­kostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi undan­farin misseri og hafnir yfir­fullar víða um heim. Fyrir­tæki hafa leitast við að byggja upp birgða­stöðu og takast á við aukna eftir­spurn eftir fyrstu bylgju sam­komu­tak­markana í Evrópu og Banda­ríkjunum á síðasta ári.

Vand­ræðin eru til staðar í lengri tíma en við gerðum ráð fyrir við upp­haf krísunnar

„Við sjáum í raun fram á að vanda­mál verði við út­vega að­föng og hrá­efni langt fram á, ef ekki út allt, næsta fjár­hags­ár - út ágúst. Vand­ræðin eru til staðar í lengri tíma en við gerðum ráð fyrir við upp­haf krísunnar,“ segir Jon Abra­hams­son Ring, fram­kvæmda­stjóri eignar­halds­fé­lagsins Inter IKEA í sam­tali við Financial Times.

Ring segir ó­lík­legt að IKEA ráðist í miklar breytingar á al­þjóð­legri að­fanga­keðju þess vegna á­hrifa far­aldursins. „Ég sé ekki fram á veru­leg um­skipti eða breytingar á því hvernig við öflum að­fanga. Við munum halda á­fram að vinna náið með helstu birgjum okkar,“ segir hann.

Er far­aldurinn hófst var IKEA byrjað að gera um­tals­verðar breytingar á rekstrinum með það að mark­miði að minnka á­herslu á að selja við­skipta­vinum hús­gögn sem þeir setja saman sjálfir. Það hefur undan­farin ár keyot fjölda fyrir­tækja sem smíða til­búin hús­gögn og sprota­fyrir­tæki sem notar við­bótar­veru­leika (e. aug­mented reality) til að að­stoða fólk við að skipu­leggja heimili sín.

IKEA kynnti fyrir skömmu bráða­birgða­árs­reikninga þar sem kom fram að vöxtur hefði orðið hjá fyrir­tækinu til góða og flýtt fyrir breytingum á rekstri þess. Sala jókst um sex prósent frá ágúst í fyrra til ágúst í ár miðað við sama tíma­bil 2019 til 2020. Endan­legir árs­reikningar liggja fyrir síðar á árinu.

Verslun IKEA í Garðabæ.

Jesper Brodin, fram­kvæmda­stjóri Ingka stærsta sér­leyfis­hafa IKEA, segir að Co­vid-far­aldurinn hafi flýtt um­breytingum hjá IKEA, sem hafa það að mark­miði að flytja verslanir úr út­hverfum til mið­svæða og auka sölu til fyrir­tækja. Sala til fyrir­tækja nemur nú 30 prósentum af heildar­sölu IKEA en var sjö prósent árið 2019 og 18 prósent í fyrra.

„Á­standið hefur verið inn­spýting líkt og aldrei fyrr til að hraða breytingunum,“ segir hann.

Brodin segir að Ingka, sem er lang­stærsti seljandi IKEA-varnings, hafi fjár­fest fyrir meira tvær billjónir evra í þróun nýrra verslana sem leggja á­herslu á eld­hús eða svefn­her­bergi, auk byggingu smærri verslana í mið­borgum. Ein slík opnar í mið­bæ Stokk­hólms innan skamms.