Allt stefnir í verð­hækkanir og sam­drátt í hagnaði hjá sænska hús­gagna­risanum IKEA. Líkt og svo mörg önnur fyrir­tæki glímir það við vanda­mál í að afla að­fanga og hækkandi hrá­efnis­kostnað.

Martin van Dam, fjár­mála­stjóri Inter IKEA, segir út­lit fyrir að næstu tvö ár verði fyrir­tækinu erfið. Inter IKEA er eignar­halds­fé­lags IKEA og eig­anda vöru­merkisins.

Heildar­hagnaður Inter IKEA á síðasta fjár­hags­ári, frá ágúst 2020 til ágúst á þessu ári, var um 17 prósentum minni en árið á undan þrátt fyrir að fyrir­tækið hafi selt sex prósentum meira af vörum, fyrir tæpa 42 milljarða evra. Fyrir­tækið hefur aldrei selt fyrir slíka upp­hæð áður.

„Fyrir fjár­hags­árið 2022, stöndum við frammi fyrir á­fram­haldandi að­fanga­vanda­málum, frammi fyrir á­fram­haldandi hækkunum á hrá­efni, frammi fyrir hækkandi raf­orku­verði. Fjár­hags­árið 2022 verður ekki auð­veldara en fjár­hags­árið 2021, það verður erfiðara...þetta saxar gríðar­lega á hagnaðinn“, segir hann í sam­tali við Financial Times.

Martin van Dam, fjár­­mála­­stjóri Inter IKEA, segir erfiða tíma fram undan.
Mynd/IKEA

Eins og ís­lenskir neyt­endur þekkja vel leggur IKEA mikið upp úr því að bjóða vörur á hag­stæðu verði og hefur lagt mikla á­herslu að undan­förnu að fram­leiða ó­dýrar vörur er það sækir inn á markaði í þróunar­ríkjum á borð við Ind­land. Verð­hækkanir gætu flækt málin mikið.

Inter IKEA hefur ekki hækkað verð síðan árið 2019 en búist er við því að hækkarnir nú verði mun meiri. Þó hefur fyrir­tækið ekki tekið endan­lega á­kvörðun um hve miklar þær verða. Van Dam segir þó ekki víst að þessar hækkanir lendi allar á neyt­endum, það velti á því hve mikið tap rekstrar­aðilar IKEA um heim allan séu reiðu­búnir að sætta sig vegna dýrari inn­kaupa og hve miklar hækkanir fari út í verð­lag.

„Við viljum auð­vitað vera með eins lágt verð og hægt er. Við getum ekki látið þessa erfiðu tíma breyta okkur“, segir van Dam. Skortur á ýmsum vöru­tegundum stæði í vegi fyrir vexti IKEA og væri við­skipta­vinum von­brigði.