Orka náttúrunnar (ON) íhugar að kæra Landsnet til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að hagsmunum Landsvirkjunar er sagt hyglað umfram aðra raforkuframleiðendur í kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2021 til 2028. Landsvirkjun er stærsti eigandi Landsnets. Þetta kemur fram í svari ON við athugasemdum Landsnets vegna umsagnar um kerfisáætlunina sem ON sendi til Orkustofnunar (OS). Kerfisáætlun Landsnets lýsir framtíðarsýn Landsnets um uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi á árunum 2020 til 2029. Framkvæmdaáætlunin á að kosta um 90 milljarða króna og er fjármögnuð með flutningsgjöldum.

Í fyrstu umsögn sinni til OS vísaði ON til þess að í upprunalegri umfjöllun OS um kerfisáætlunina kom fram að einn viðskiptavina Landsnets hefði ítrekað beiðni sína um að auka flutningsgetu milli suðvestur- og norðausturhluta landsins. Er þar vísað til Landsvirkjunar, en tilgangur tengingarinnar sem um ræðir er fyrst og fremst að tengja Fljótsdalsstöð við suðvesturhorn landsins. „Getur Landsvirkjun krafist þess að Landsnet styrki flutningskerfið, á kostnað allra notenda, svo [Landsvirkjun] geti þannig selt 300 gígavattstundir á ári, eða meira, til annarra kaupenda?“ sagði ON í fyrstu umsögn sinni sem birt var rétt fyrir jól á vefsíðu OS.

Landsnet svaraði þessum vangaveltum ON ekki með beinum hætti í viðbrögðum sínum við fyrstu umsögnum kerfisáætlunarinnar. Í nýjasta erindi sínu ítrekar ON að tenging milli Fljótsdalsstöðvar og Reykjaness muni hafa þær afleiðingar að Landsvirkjun geti selt umframorku frá Fljótsdalsstöð ef dreifikerfið yrði eflt með þeim hætti sem lýst er: „[E]n allir notendur kerfisins greiða fyrir styrkinguna,“ segir ON og tekur fram að tengingin sem um ræðir myndi auka tekjur Landsvirkjunar um tæplega 17 milljarða á ári, fyrir atbeina téðrar tengingar.

„Að mati ON er málið skýrt. Um er að ræða óréttláta úthlutun gæða og kostnaðar á markaði þar sem ríkir samkeppni. Það er mögulega umfjöllunarefni fyrir samkeppnisyfirvöld ef Landsnet knýr í gegn breytingar sem hygla stærsta eiganda Landsnets á kostnað annarra á samkeppnismarkaði,“ segir ON.

Í andsvörum Landsnets við fyrstu athugasemdir sem birtar voru í desember kom meðal annars fram að álverð væri nú á uppleið og hefði náð 2.100 dollurum á tonnið í desember. Í svari ON við þessu segir meðal annars: „Ekki er skynsamlegt að taka punktstöðu á ákveðnum hrávörumörkuðum og byggja framtíðaráform til 40 ára á þeim,“ og jafnframt: „Landsneti hefur misfarist að lesa rétt út úr álmörkuðum í byrjun desember,“ en meðalálverð á þriðja fjórðungi síðasta árs var 1.742 dollarar á tonnið.

Að mati ON er málið skýrt. Um er að ræða óréttláta úthlutun gæða og kostnaðar á markaði þar sem ríkir samkeppni.

ON bendir á að samkvæmt greiningu fyrirtækisins CRU megi leiða út að hægt sé að reka álver í Kína með hagnaði ef álver er yfir 1.350 dollarar á tonnið: „Af þessu er ljóst að líta þarf í hvert horn til að hafa undan í samkeppni á Íslandi og hagkvæmnissjónarmið þurfa einnig að eiga við flutningskerfi,“ segir í nýjustu umsögn ON um kerfisáætlun Landsnets