Samkomu- og ferðabann í apríl og maí er talið munu valda 234 milljóna króna tapi á rekstri Haga á fyrsta fjórðungi þessa árs. Tekjusamdráttur dótturfélagins Olís mun vega þyngra en aukning í dagvörusölu á fjórðungnum, að því er kemur fram í nýrri afkomuspá IFS greiningar fyrir uppgjörstímabilið mars-maí.

IFS spáir því að tekjur félagsins muni nema um 27,3 milljörðum króna á tímabilinu, samanborðið við 28,6 milljarða á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða samdrátt upp á 4,5%.

Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta mun dragast saman um 54,2% og hljóða upp á 931 milljón. Rekstarniðurstaðan fyrir fyrsta fjórðung mun verða neikvæð um 234 milljónir króna, samanborið við 665 milljón króna hagnað á sama tímabili í fyrra.

Mikill samdráttur í eldsneytissölu vegna fyrirséðrar fækkunar ferðamanna verður að einhverju leyti bættur upp með auknum ferðalögum landsmanna innanlands. IFS hefur þó „hóflegar væntingar“ til þeirra mótáhrifa, að því er kemur fram í afkomuspánni.

Auk minni eldsneytissölu vinnur veiking krónunnar á móti framlegð Haga, en gengi krónunnar gagnvart evru var um 15% veikara að meðaltali á tímabilinu mars-maí en á samsvarandi tímabili í fyrra, að sögn IFS. Stærstur hluti þeirrar veikingar kom fram á þessu ári, þegar ljóst varð að áhrif farsóttarinnar á allt efnahagslíf yrðu töluverð.

Kostnaður vegna starfsloka Finns Árnasonar, forstjóra Haga og Guðmundar Marteinssonar, framkvæmdastjóra Bónuss hafði áður verið metinn á bilinu ríflega 300 milljónir króna af sérfræðingum IFS.

Nú hefur verið tilkynnt að Guðmundur muni áfram starfa hjá Högum. IFS metur því kostnaðinn nú um 150-200 milljónir króna.

Greint var frá því í Markaðnum þann 6.maí síðastliðinn að uppsagnarfrestur Guðmundar væri þrjú ár en Finns eitt ár. Báðir voru á sambærilegum launum, að því er heimildamenn Markaðarins greindu frá.

Hagar birta uppgjör fyrsta fjórðungs 29.júní næstkomandi.