Icewear hefur tekið við veitinga- og verslunarrekstri Þjóðgarðsins á Þingvöllum, Þjónustumiðstöðinni á Leirum og einnig Gestastofu sem er staðsett rétt við útsýnisskífuna á Hakinu, þar sem gengið er niður í Almannagjá. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Veitingasalan opnar á þjóðhátíðardaginn sjálfan þann 17. júní og geta gestir sem eiga leið hjá fengið sér kaffi og vöfflur og krökkum verður boðið að fá sér frían íspinna í tilefni dagsins.

Hægt er að njóta sýningarinnar Hjarta lands og þjóðar sem er opin í Gestastofu en þar geta gestir sjálfir kallað fram upplýsingar um sögu og náttúru þjóðgarðsins með gagnvirku viðmóti, um leið og þeir rölta í gegnum rýmið, en frítt er inn á sýninguna í tilefni dagsins.

„Markmiðið er að bjóða innlendum og erlendum gestum Þjóðgarðsins upp á úrval af gjafavöru sem tengist Þingvöllum, sögu Íslendinga og merkilegum atburðum, náttúru staðarins og ekki síst dýralífinu á svæðinu. Hönnun á vörulínu sem tengist Þingvöllum er þegar hafin og við erum mjög spennt fyrir því að takast á við verkerfnið sem tengist þessum merkilega stað sem skipar sérstakan sess í hugum allra Íslendinga,” segir Aðalsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Icewear.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður 1930 og í dag eru Þingvellir einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Í þjóðgarðinum má fá fræðslu um sögu og náttúru Þingvalla og er m.a. að finna fallegar gönguleiðir, reiðleiðir og tjaldsvæði.

Drífa rekur verslanir Icewear og Icemart og tók þjóðgarðurinn á Þingvöllum tilboði Drífu í veitinga- og verslunarrekstur á Þingvöllum í kjölfar útboðs Ríkiskaupa. Þrjú tilboð bárust í reksturinn og var Drífa með hagstæðasta tilboðið og er samningur gerður til þriggja ára með möguleika á að framlengja samning tvisvar sinnum um eitt ár, segir í tilkynningunni.