Icelandair hefur nú undirritað samninga við flesta kröfuhafa og náð samkomulagi í meginatriðum við þá sem eftir eru. Gerir félagið ráð fyrir að þeir samningar verði undirritaðir í næstu viku.

Samningaviðræður við hagaðila sagðar vel á veg komnar en slíkt samkomulag er forsenda þess að félagið geti hafið fyrirhugað hlutafjárútboð og lokið við fjárhagslega endurskipulagningu.

Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair að samningar við kröfuhafa séu háðir því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár og geri samning um lánalínu með ríkisábyrgð.

„Samningaviðræður við kröfuhafa hafa miðað að því að laga afborganir að væntu sjóðstreymi frá rekstri. Þessir samningar tryggja nauðsynlegan sveigjanleika til að geta byggt starfsemi félagsins upp hratt og örugglega á ný þegar markaðir opnast og eftirspurn fer að aukast.

Unnið að útfærslu láns með ríkisábyrgð

Að sögn Icelandair hefur verið unnið að útfærslu á láni með ríkisábyrgð með íslenskum stjórnvöldum, Íslandsbanka og Landsbankanum og eru viðræður langt komnar. Verður lánafyrirgreiðsla stjórnvalda meðal annars háð því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár.

Þá eru samningaviðræður við Boeing sagðar vel á veg komnar en viðræðurnar snúast um frekari bætur vegna kyrrsetningar MAX vélanna og að breytingar verði gerðar á áætlun um framtíðarafhendingu MAX flugvéla.

Gert er ráð fyrir að hlutafjárútboði Icelandair Group muni ljúka í ágúst.