Breytingar hafa verið gerðar á skipulagi Icelandair Group til að ná fram enn skýrari áherslu á flugrekstur. Um er að ræða breytingar á framkvæmdastjórn og undirbúning sölu á Iceland Travel.

Í tilkynningu frá Icelandair til Kauphallarinnar segir að unnið verði að frekari samþættingu Air Iceland Connect og VITA við Icelandair Group. Þá hafi stjórn félagsins tekið ákvörðun um að hefja undirbúning á sölu Iceland Travel.

Starfsemin mun skiptast í átta svið sem samanstanda af fjórum kjarnasviðum og fjórum stoðsviðum. Kjarnasviðin verða sölu- og þjónustusvið, flugrekstrarsvið, flugflutningasvið og flugvélaleiga og ráðgjöf. Þá munu fjögur stoðsvið vinna þvert á fyrirtækið: fjármálasvið, mannauðssvið, stafræn þróun og upplýsingatækni, sem og flugfloti og leiðarkerfi.

Sölu- og markaðssvið og svið þjónustuupplifunar sem rekin hafa verið sem tvö aðskilin svið verða sameinuð í eitt. Birna Ósk Einarsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra þjónustuupplifunar, mun leiða sameinað sölu- og þjónustusvið félagsins. Gunnar Már Sigurfinnsson, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs, situr áfram í framkvæmdastjórn félagsins sem framkvæmdastjóri flutningasviðs.

Tómas Ingason kemur nýr inn í framkvæmdastjórn félagsins og fer fyrir nýju sviði, stafrænni þróun og upplýsingatækni og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir sem kemur einnig ný inn í framkvæmdastjórn, eins og fram hefur komið, hefur störf sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs um miðjan febrúar.

Jafnframt taka Ívar S. Kristinsson, framkvæmdastjóri flotamála og leiðarkerfis félagsins, og Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic, sæti í framkvæmdastjórn.

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, sem er nú í söluferli, mun við þessa breytingu víkja úr framkvæmdastjórn félagsins. Þá mun Jens Bjarnason framkvæmdastjóri nú einbeita sér að erlendu fjárfestingarverkefni en hann hefur undanfarin tvö ár leitt slíkt verkefni Icelandair Group á Grænhöfðaeyjum.