Ekki er ólíklegt að sjóðsstaða Icelandair verði orðin þröng í lok árs og að félagið þurfi að draga á lánalínur með ríkisábyrgð. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýju verðmati Jakobsson Capital á Icelandair Group, sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Greinandi Jakobsson Capital er ekki sérlega bjartsýnn til næstu mánaða, þótt faraldurinn sé í hraðri rénun. „Ólíklegt er að tekjur Icelandair muni aukast um nærri 60 prósent árið 2021 og verða 683 milljónir dollara, líkt og gert var ráð fyrir í kynningu Icelandair í aðdraganda útboðs,“ segir hann og vísar þar til hlutafjárútboðs Icelandair í vetur.

Tekjuáætlun hefur verið lækkuð umtalsvert frá síðasta verðmati. Áður var gert ráð fyrir að ferðaþjónustan tæki við sér af krafti seinni hluta árs 2021 en nú er gert ráð fyrir að það verði ekki fyrr en árið 2022 og hefur rekstraráætlun verið í raun hliðrað um 6 mánuði. Flugárið 2021 verður því svipað og flugárið 2020.

Íslensk stjórnvöld veittu félaginu ábyrgð á lánalínu að fjárhæð allt að 120 milljónum Bandaríkjadala í aðdraganda útboðsins. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, hefur sagt að markmið stjórnenda sé „númer eitt, tvö og þrjú“ að nota ekki þessa lánalínu.

Ef spá Jakobsson Capital gengur eftir verður sjóðsstaða Icelandair orðin þröng í lok árs og ekki ólíklegt að félagið þurfi að draga um 40 til 50 milljónir dala á lánalínur.

„Ljóst er að þetta er töluvert dekkri mynd en var dregin upp í kynningu Icelandair í aðdraganda útboðs, segir í verðmatinu. Eiginfjárhlutfallið mun fara niður í 9,4 prósent í ár en sviðsmynd Iceland­air gerði ráð fyrir að það yrði lægst 14 prósent.

Verðmatið á Icelandair er nú 475 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 62 milljarða króna, en var 557 milljónir dala við útgáfu síðasta verðmats og lækkar um tæplega 15 prósent. Verðmatsgengi nú er 2,18 krónur á hlut en var síðast 2,70 og lækkar um 19 prósent.