„Til þess að geta undir­búið og hafið sókn af fullum krafti, þarf fé­lagið nú fleiri hendur á dekk. Það er í mörg horn að líta enda krefst undir­búningur fyrir opnun landsins mikillar vinnu varðandi flug­á­ætlun, sölu- og markaðs­mál, þjónustu og út­færslu sótt­varna,“ segir Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair í til­kynningu sem fjöl­miðlum barst frá fé­laginu rétt í þessu.

Icelandair segir þannig að fé­lagið muni ekki halda á­fram á hluta­bóta­leiðinni eins og greint var frá fyrr í dag. Fram kom í skýrslu Ríkis­endur­­skoðunar í gær að Icelandair hafi fengið mest greitt allra fyrir­­­tækja sem nýttu sér hluta­bóta­­leiðina. Fyrir­­­tækið hefði þegið um milljarð króna úr ríkis­­sjóði í gegnum leiðina.


Greint var frá því fyrir há­degi að for­­stöðu­­maður við­halds­­sviðs Icelandair hefði sent starfs­mönnum orð­sendingu í morgun þar sem þetta var til­kynnt. Óskað var þá eftir því að það tæki á sig tíu prósent launa­skerðingu eða tíu prósent skert starfs­hlut­fall í júní og júlí.

Laun forstjóra og stjórnar áfram skert


Í til­kynningunni segir að fé­lagið fari nú af hluta­bóta­leiðinni vegna þess að nú sé svo komið að fé­lagið þurfi á meira vinnu­fram­lagi að halda en síðustu mánuði vegna undir­búnings við opnun landa­mæranna. „Eftir að hafa skoðað málið gaum­gæfi­lega er niður­staðan sú að hluta­bóta­leið stjórn­valda muni ekki eiga við lengur í starf­semi Icelandair Group frá og með 1. júní, nema hjá Iceland Tra­vel,“ segir í til­kynningunni.


„Icelandair Group hefur síðustu tvenn mánaða­mót gripið til yfir­grips­mikilla að­gerða sem fólu í sér veru­legar upp­sagnir og breytingar á skipu­lagi fé­lagsins. Á sama tíma hefur fé­lagið lagt ríka á­herslu á að halda uppi grunn­starf­semi á öllum sviðum og tryggja þar með nauð­syn­legan sveigjan­leika til að geta brugðist hratt við um leið og markaðir opnast á ný og eftir­spurn eftir flugi og ferða­lögum myndast.“


„Í maí­mánuði hafa lang­flestir starfs­menn fé­lagsins verið í skertu starfs­hlut­falli í sam­ræmi við hluta­bóta­leið stjórn­valda. Aðrir hafa verið í fullu starfi með skert laun,“ segir þá í til­kynningunni og tekið fram að laun forstjóra og stjórnar félagsins muni áfram skerðast um 30 prósent og laun framkvæmdastjóra um 25 prósent.