Verð hlutabréfa Icelandair hefur lækkað um 10,6 prósent í 57 milljóna króna viðskiptum í dag. 

Frá síðasta þriðjudegi hafa bréf flugfélagsins lækkað um tæp 20 prósent. Gengi  bréfanna stendur nú í 7,4 krónum á hvern hlut.

Skuldabréfaeigendur WOW air, sem fjárfestu fyrir samtals 60 milljónir evra, jafnvirði 8,2 milljarða króna, í skuldabréfaútboði flugfélagsins síðasta haust, þurfa að samþykkja 50 prósenta afskrift af höfuðstól skuldabréfanna til þess að kaup Indigo Partners í félaginu nái fram að ganga. Þetta kom fram í bréfi sem barst skuldabréfaeigendum WOW air og birt var um helgina.

Sjá einnig: Þurfa að taka á sig 50 prósenta afskriftir

Í bréfinu til skuldabréfaeigenda WOW air kemur enn fremur fram að endanlegur eignarhlutur Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda flugfélagsins, í félaginu muni ráðast af því hvernig rekstrarbati félagsins muni ganga á næstu þremur árum. Í versta falli gæti hlutur Skúla orðið núll prósent.

Þá hafa vaknað spurningar um Boeing 737 Max 8 eftir flugslysið í Eþíópíu þar sem 157 fórust. Þetta er í annað sinn sem flugvél slíkrar gerðar ferst á fimm mánaða tímabili. Icelandair á þrjár 737 Max 8 þotur en flugfélagið hefur sagt ótímabært að kyrrsetja vélarnar.