Icelandair Group hefur slitið viðræðum við WOW air um kaup á félaginu. Ekki verður því af sameiningu flugfélaganna. Þetta kemur fram í örstuttri tilkynningu.

„Icelandair Group hefur ákveðið að ekki muni verða af hugsanlegri aðkomu félagsins að rekstri flugfélagsins WOW air sem tilkynnt var um hinn 20. mars sl. Þar með hefur viðræðum á milli aðila verið slitið.“

Indigo Partners sleit viðræðum við eigendur WOW um kaup á flugfélaginu 21. mars síðastliðinn.

Sjá einnig: Viðræðurnar lokatilraun til að bjarga WOW

Fréttablaðið hafði eftir Steini Loga Björnssyni, fyrrverandi framkvædastjóra Icelandair og núverandi eiganda flugfélagsins Bláfugls, á föstudag að viðræður Icelandair og WOW air væru lokatilraun til að bjarga WOW. Þær hafa nú runnið út um þúfur.

Talið er að á morgun sé gjalddagi á 150 milljóna króna vaxtagreiðslu á láni WOW air. Steinn taldi að það væri skýringin á því hvers vegna Icelandair Group og WOW air hefðu gefið sér svona skamman tíma til viðræðna. Fram kom í máli hans að staða Icelandair væri þrengri en áður, vegna kyrrsetningar á Boeing Max 8 flugvélum.

Sjá einnig: Fullyrða að Max-vélin hafi verið hönnuð í dauðans ofboði

Í greinargerð Reykjavík Economics, sem fjallað hefur verið um að undanförnu, kemur fram að ef WOW verður gjaldþrota gæti það kostað meira en fjögur þúsund störf. Brotthvarf félagsins myndi þýða 2,7 prósent samdrátt í landsframleiðslu. 

Ekki náðist í upplýsingafulltrúa WOW við vinnslu fréttarinnar.