Icelandair hefur slitið kjaraviðræðum sínum við Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) og hyggst segja upp öllum flugfreyjum og flugþjónum.

Flugfélagið gerir ráð fyrir því að hefja viðræður við annan samningsaðila á hinum íslenska vinnumarkaði.

Munu flugmenn félagsins frá og með næsta mánudegi starfa tímabundið sem öryggisliðar um borð í vélum, er segir í tilkynningu frá Icelandair.

Kjaraviðræður FFÍ og Icelandair hafa staðið yfir í nokkurn tíma. Þann 8. júlí síðastliðinn felldu félagsmenn Flugfreyjufélagsins nýjan kjarasamning sem undirritaður var við Icelandair þann 25. júní.

Afgerandi meirihluti félagsmanna hafnaði samningnum eða 72,65 prósent.

Þá hefur Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagt að stjórnendur þess muni fara aðrar leiðir ef samningar náist ekki við FFÍ.

Stjórnendur Icelandair hafa lengi sagt að gerð nýrra langtímakjarasamninga við flugstéttir félagsins séu ein forsenda þess að hægt verði að ráðast í fjárhagslega endurskipulagningu Icelandair.

Nú þegar hefur flugfélagið samið um nýja kjarasamninga við flugvirkja og flugmenn.

Segir tímann vera á þrotum

Haft er eftir Boga í fréttatilkynningu að félagið hafi með þeim samningi sem var nýlega hafnað gengið eins langt og mögulegt væri til að koma til móts við kröfur FFÍ.

„Tíminn er á þrotum og við neyðumst til að leita annarra leiða. Þessi ákvörðun er mér afar þungbær en nauðsynleg þar sem ljóst er að samtalið milli félaganna tveggja fer ekki lengra. Það hvílir mikil ábyrgð á okkur sem stjórnum félaginu að tryggja rekstur þess til framtíðar og því miður sjáum við ekki annan kost í stöðunni en að fara þessa leið.

Það er sárt að vera í þessari stöðu gagnvart afburðasamstarfsfólki sem hefur staðið vaktina með félaginu til fjölda ára, svo eftir hefur verið tekið.“

Fréttin hefur verið uppfærð.