Flugfélagið Icelandair gerir til sig klárt fyrir auknar ferðir vestur yfir haf nú þegar Bandaríkjamenn hafa gefið út að þeir ætli að opna landamæri sín þann 8. nóvember.

„Þetta skiptir mjög miklu máli. Það hefur verið krefjandi að vera með þennan stóra markað í okkar viðskiptalíkani lokað í eitt og hálft ár,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Aðeins fullbólusettir ferðamenn mega ferðast til Bandaríkjanna gegn því að framvísa neikvæðu prófi sem er ekki meira en þriggja sólarhringa gamalt. Grímuskylda verður áfram um borð í flugvélum Icelandair að sögn Boga Nils.

Flugfélagið er nú með um 2300 stöðugildi og með 30 vélar í rekstri og segist Bogi Nils vera með metnaðarfull áform inn í fjórða ársfjórðunginn í vetur. Flugfélagið hafi verið að keppast við United Airlines og Delta síðasta sumar með flugferðir frá Bandaríkjunum og segir Bogi að öll samkeppni sé heilbrigð, hvort sem það er við Delta eða Play.