Fulltrúar Icelandair Group hófu í dag viðræður við fulltrúa skuldabréfaeigenda sem ráða yfir meira en 50 prósent af skuldabréfum félagsins. Er meðal annars til skoðunar af hálfu félagsins að óska eftir tímabundinni undanþágu frá lánaskilmálum sínum.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair Group sendi Kauphöllinni í morgun.

Í ljósi uppfærðrar afkomuspár Icelandair Group frá því í lok ágústmánaðar segir félagið það mögulegt að fjárhagslegar kvaðir er varða hlutfall vaxtaberandi skulda, sem koma fram í skilmálum skuldabréfanna, verði ekki uppfylltar samkvæmt uppgjöri þriðja ársfjórðungs.

Markaðurinn greindi frá því í ágúst að samkvæmt lánakvöðunum megi vaxtaberandi skuldir ekki vera meiri en sem nemur 3,5 sinnum hagnaði fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) síðustu tólf mánaða. Vaxtaberandi skuldir voru í lok júní 343 milljónir dala. Áætlað er að skuldirnar verði um 393 milljónir dala í árslok 2018 og ef miðað er við að EBITDA ársins verði 90 milljónir dala, sem er meðaltal afkomuspár stjórnenda, verða skuldirnar tæplega 4,4 sinnum EBITDA.

Icelandair Group hefur ráðið DNB Bank Markets sem fjárhagslegan ráðgjafa félagsins í viðræðunum, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að í ljósi hinnar uppfærðu afkomuspár sé félagið nú að meta þá möguleika sem séu í stöðunni, til að mynda „að óska eftir tímabundinni undanþágu frá hinum fjárhagslegu kvöðum frá eigendum skuldabréfanna, breytingum á skilmálum skuldabréfanna eða uppgreiðslu skuldabréfanna að hluta eða uppgreiðslu annarra skulda“.

Félagið bendir á að þrátt fyrir möguleika á því að kvaðir skuldabréfanna um hlutfall heildarvaxtaberandi skulda verði ekki uppfylltar, þá hafi handbært fé þess numið 237 milljónum dala í lok júnímánaðar. 

Eigið fé hafi auk þess numið 530 milljónum dala og eiginfjárhlutfall félagsins verið 32 prósent. Til viðbótar hafi bókfært verð varanlegra rekstrarfjármuna numið 673 milljónum dala og fyrirframgreiðslur inn á nýjar flugvélar í efnahagsreikningi 143 milljónum dala. Á sama tíma nam heildarfjárhæð vaxtaberandi skulda 343 milljónum dala en þar af voru 121 milljón dala veðtryggðar.