Grunnsviðsmynd stjórnenda Iceland­air Group gerir ráð fyrir að flugfélagið nái ekki sama farþegafjölda og í fyrra – um 4,4 milljónum – fyrr en árið 2024. Þetta kom fram í kynningu Boga Nils Bogasonar, forstjóra Ice­landair Group, og Marinós Arnar Tryggvasonar, forstjóra Kviku banka, eins helsta ráðgjafa flugfélagsins, á fundum með nokkrum af stærstu hluthöfum félagsins sem hófust um miðja síðustu viku.

Umrædd sviðsmynd liggur meðal annars til grundvallar endurfjármögnun Icelandair Group, eftir því sem heimildir Markaðarins herma, en eins og félagið greindi frá í síðustu viku áformar það að sækja sér allt að tvö hundruð milljónir dala, ríflega 29 milljarða króna, í almennu hlutafjárútboði sem til stendur að halda í næsta mánuði.

Í sömu sviðsmynd er miðað við að sjóðir Icelandair Group minnki um sem nemur í kringum tíu milljónum dala á mánuði á meðan félagið er án tekna. Sú áætlun miðast þá við, samkvæmt heimildum Markaðarins, að flugfélagið geti hafið starfsemi á ný innan mánaðar þegar tækifæri gefast.

Sviðsmyndin gerir jafnframt ráð fyrir því að starfsemi flugfélagsins verði lítil sem engin í tólf mánuði, auk þess sem félagið verði í stakk búið til þess að geta lifað af allt að 24 mánuði í slíku umhverfi.

Á fyrrnefndum fundum, sem eru sagðir eins konar undirbúningsfundir fyrir fyrirhugað hlutafjárútboð, komu engar upplýsingar fram um hve miklar vaxtaberandi skuldir flugfélagsins verði eftir mögulega skuldbreytingu en umræddar skuldir námu alls 327 milljónum dala, um 48 milljörðum króna, í lok marsmánaðar. Félagið kannar sem kunnugt er möguleikann á því að breyta skuldum í hlutafé en á meðal lánveitenda þess eru Íslandsbanki, Landsbankinn og bandaríski bankinn CIT bank.

Enn fremur var ekki upplýst um það á fundunum hve háar fjárhæðir stjórnvöld eru reiðubúin til þess að veita Icelandair Group í lánalínu, ef áform félagsins um hlutafjáraukningu ganga eftir. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa látið hafa eftir sér að þær geti orðið talsvert hærri en fimm til tíu milljarðar króna.

Þá komu engin skýr svör um það á fundunum, að sögn þeirra sem þekkja vel til mála, hvort flugfélagið geti með einum eða öðrum hætti losað sig við þær MAX-þotur sem það hefur þegar fengið afhentar og hafa staðið óhreyfðar í kjölfar kyrrsetningar þeirra í mars í fyrra.

Þó eru væntingar um, eftir því sem Markaðurinn kemst næst, að flugfélagið geti losnað undan samningum sem það gerði við framleiðanda vélanna, Boeing, um kaup á sjö MAX-þotum sem hafa enn ekki verið smíðaðar.

Samningar liggi fyrir

Flestir stærstu hluthafar Icelandair Group, sem eru einkum íslenskir lífeyris- og verðbréfasjóðir, gera það að skilyrði fyrir mögulegri aðkomu að hlutafjárútboði flugfélagsins að kjarasamningar náist við flugstéttir Icelandair – flugmenn, flugfreyjur og flugvirkja – til mjög langs tíma, eins og greint var frá í Markaðinum í síðustu viku.

Þeir eru sagðir hafa komið þeim skilaboðum skýrt á framfæri við stjórnendur og ráðgjafa flugfélagsins að „undirritaðir samningar“, eins og einn viðmælandi blaðsins orðar það, þess efnis liggi fyrir áður en ráðist verður í útboðið.

Samkvæmt heimildum Markaðarins huga lífeyrissjóðirnir nú að því að fá til liðs við sig ráðgjafa sem yrði þeim innan handar í komandi viðræðum við Icelandair Group í aðdraganda hlutafjárútboðsins.

Auk Kviku banka eru Íslandsbanki og Landsbankinn flugfélaginu til ráðgjafar við undirbúning útboðsins. Fyrrnefndur Marinó Örn stýrir ráðgjafarvinnunni.

Icelandair Group tapaði um 31 milljarði króna á fyrstu þremur mánuðum ársins, samkvæmt uppgjöri sem félagið birti á mánudag, en þar af nam einskiptiskostnaður vegna áhrifa kórónaveirunnar alls ríflega 23 milljörðum króna. Rekstrartap félagsins í marsmánuði einum var yfir 25 milljarðar króna.

Eigið fé flugfélagsins var komið í 27 milljarða króna í lok fjórðungsins og eiginfjárhlutfallið 18 prósent, að undanskildu Icelandair Hotels, en til samanburðar nam eigið fé félagsins ríflega 59 milljörðum króna í lok síðasta árs. Var eiginfjárhlutfallið þá 29 prósent.

Þá nam staða handbærs fjár félagsins um 32 milljörðum króna í lok mars síðastliðins en að teknu tilliti til óádreginna lánalína var lausafjárstaðan ríflega 40 milljarðar króna. Félagið hefur sagt að lausafjárstaðan fari undir 29 milljarða króna á næstu vikum.