Icelandair Group hefur gert bráðabirgðasamkomulag við bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing um bætur fyrir hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar Boeing 737-MAX vélanna. Upplýsingar um samkomulagið eru trúnaðarmál og viðræður við Boeing munu halda áfram um að fá heildartjón vegna kyrrsetningarinnar bætt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Í tilkynningunni kemur fram að áætluð áhrif vegna kyrrsetningarinnar hafi numið um 140 milljónum bandaríkjadala á EBIT afkomu félagsins fram til 30. júní. Hafa þessi áhrif aukist á undanförnum mánuðum þar sem vélarnar eru enn kyrrsettar.

Í dag, að teknu tilliti til þess samkomulags sem nú hefur náðst, metur Icelandair Group tjónið eftir sem áður á um 135 milljónir bandaríkjadala eða tæplega 17 milljarða króna.

Eins og áður hefur komið fram hefur Icelandair Group átt í viðræðum við Boeing um að fá allt það tjón bætt sem kyrrsetning MAX vélanna hefur valdið félaginu. Þær viðræður munu sem fyrr segir halda áfram. Afkomuspá Icelandair Group fyrir árið 2019 stendur óbreytt.