Icelandair Group, sem lækkað hefur um 2,5 prósent það sem af er degi, leiðir lækkanir dagsins á hlutabréfamarkaði. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,9 prósent. Öll félög á markaði hafa lækkað nema Heimavellir og Origo en engin viðskipti hafa átt sér stað með þau í dag.

Gengi Icelandair Group er komið niður fyrir sex, það er 5,86 um þessar mundir. Það sem af er ári hefur gengið lækkað um 37 prósent.

ViðskiptaMogginn sagði frá því á forsíðu í dag að undirbúningur standi nú sem hæst við að koma tveimur flugfélögum á koppinn sem séu með tengingar við hið fallna WOW air. Annars vegar er um að ræða WAB eða We Are Back sem fyrrverandi starfsmenn WOW air eru í forsvari fyrir og hins vegar WOW 2 hvar bandaríska athafnakonan Michele Roosevelt Edwards stendur í stafni.

„15. október gæti orðið sögulegur dagur í íslenskri flugsögu miðað við upplýsingar sem koma frá heimildarmönnum ViðskiptaMoggans á flugmarkaði. Segja þeir að þann dag muni draga til tíðinda hjá bæði WAB og WOW 2, sem bæði hyggja á flugrekstur til og frá Íslandi,“ segir í frétt ViðskiptaMoggans.