Icelandair stefnir að því að klára samninga við fimmtán lánardrottna, stjórnvöld og Boeing fyrir lok mánaðar áður en farið verður í hlutafjárútboð. Stjórnendur félagsins horfa til þess að semja við lánardrottna um lækkun afborgana og eiga í viðræðum við stjórnvöld um skilmála lánalínu til þrautavara.

Þetta segir Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair, í samtali við Fréttablaðið. Eva segir að lánardrottnarnir sem Icelandair hafi átt í viðræðum við séu fimmtán talsins en um er að ræða leigusala, færsluhirða, lánveitendur og mótaðila vegna olíuvarna. Viðræðurnar eru flestar komnar vel á veg og er flugfélagið bjartsýnt á að klára samninga við alla lánardrottna fyrir næstu mánaðamót, en hún bendir þó á að verkefnið sé í senn ærið og krefjandi.

„Samhliða því erum við að ræða við ríkið um lánaskilmála vegna lánalínu til þrautavara, sem félagið gæti nýtt ef rekstrarskilyrði flugfélaga verða mjög erfið til lengri tíma og fjármagnið úr hlutafjárútboðinu dugar ekki til,“ segir Eva. Hlutafjáraukningin á að nægja félaginu ef grunnsviðsmynd félagsins um að lítið verði flogið fram á næsta vor rætist. Viðræðurnar við stjórnvöld snúast þannig um að Icelandair geti dregið á lánalínu og tryggt rekstrarhæfi ef ládeyðan á markaðinum varir lengur en spár félagsins gera ráð fyrir.

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair.
Ljósmynd/Icelandair

Spurð hvort að Icelandair óski eftir skuldbreytingu við lánardrottna, þ.e.a.s. að kröfum á flugfélagið verði breytt í hlutafé, segir Eva Sóley að svo sé ekki.

„Viðræðurnar snúast ekki um skuldbreytingu heldur erum við að horfa til þess að styrkja lausafjárstöðu félagsins með því að aðlaga afborganir að áætluðu sjóðsstreymi á meðan félagið flýgur lítið,“ segir Eva Sóley.

„Viðræðurnar snúast ekki um skuldbreytingu heldur erum við að horfa til þess að styrkja lausafjárstöðu félagsins.“

„Grunnsviðsmyndin byggir á því að afborganir til lánardrottna verði aðlagaðar að áætluðu sjóðsstreymi, hluthafar komi inn með nýtt fjármagn og að félagið geti dregið á lánalínu frá ríkinu ef ládeyðan á markaðnum varir lengur en spár okkar gera ráð fyrir.“

Viðræðurnar við lánardrottna eru flóknar að sögn Evu þar sem Icelandair er lítið flugfélag í alþjóðlegu samhengi. Stærstu lánardrottnarnir geta m.a. verið tregir til að ganga að óskum Icelandair svo að ekki skapist fordæmi í sambærilegum viðræðum við önnur stærri flugfélög.

Vilja draga úr óvissu um Boeing-deiluna fyrir útboðið

Icelandair á einnig í viðræðum við bandaríska flugfélaframleiðandann Boeing sem snúast annars vegar um að Boeing greiði Icelandair frekari bætur vegna kyrrsetningar MAX-vélanna, og hins vegar um framtíðarafhendingar á þeim flugvélum sem félagið á eftir að fá afhentar. Icelandair hafði pantað 16 MAX-vélar og þegar fengið 6 afhentar.

„Við erum á því að þessar vélar henti okkar leiðarkerfi vel og þær eru mjög hagkvæmar í rekstri. Við eigum nú þegar 6 vélar af þessari gerð þannig að viðræðurnar snúast annars vegar um að fá frekari bætur fyrir því rekstrartjóni sem við höfum orðið fyrir vegna kyrrsetningarinnar og hins vegar hvernig framtíðarafhendingum á flugvélum verði háttað. “ segir Eva.

Flugfélagið Norwegian hefur stefnt Boeing vegna málsins og það er enn möguleiki fyrir Icelandair að fara þá leið. „Við erum að meta næstu skref gagnvart Boeing og teljum mikilvægt að draga eins mikið og hægt er úr óvissu hvað þetta varðar í aðdraganda hlutafjárútboðsins.“

Ýmsar leiðir til að breyta olíuvörnum

Spurð um viðræður við mótaðila vegna olívarna segir Eva að Icelandair hafi keypt olíuvarnir til þess að verja um 40-60 prósent af áætlaðri olíunotkun í hverjum mánuði, sem er í takt við áhættustefnu félagsins, áður en kórónuveiran skall á heimsbyggðina. Þá snarminnkaði olíunotkun flugfélagsins.

„Við höfum verið að gera upp olíuvarnir í hverjum mánuði þegar þær falla á gjalddaga. En það eru ýmsir möguleikar í stöðunni, til dæmis að loka vörnum fram í tímann og þá mögulega með afslætti eða að færa þær lengra inn í framtíðina. Við heyrum af því að önnur flugfélög hafa farið báðar þessar leiðir.“