Icelandair hefur ákveðið að taka Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri um óákveðinn tíma. Félagið er með þrjár slíkar vélar í rekstri. Það fylgir nú í fótspor fjölda annarra flugfélaga og flugmálayfirvalda um heim allan sem kyrrsett hafa vélar sömu tegundar.

Ástæðan er mannskætt flugslys sem átti sér stað í Eþíópíu um helgina þegar vél af sömu tegund fórst. 157 létust í slysinu. Um er að ræða annað flugslys 737 MAX 8 vélar á innan við hálfu ári. Í októberlok fórst vél flugfélagsins Lion Air yfir Indónesíu með þeim afleiðingum að 189 létust.

Icelandair kveðst fylgjast náið með þróun mála og hyggst áfram vinna með flugmálayfirvöldum á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum varðandi næstu skref. „Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir, þá öryggisferla sem félagið fylgir, sem og þjálfun áhafna þess, telur félagið vélarnar öruggar,“ segir í tilkynningu.

Til skamms tíma muni þessi ráðstöfun hafa óveruleg áhrif á rekstur félagsins þar sem um er að ræða þrjár vélar af 33 farþegavélum í flota félagsins. Það hafi því svigrúm til að bregðast við á næstu vikum.

Kínversk flugmálayfirvöld tilkynntu fyrst í gær um kyrrsetningu allra 737 MAX 8 véla þar í landi. Singapúr og Ástralía fylgdu svo í kjölfarið í dag, og nú eftir hádegi tilkynntu Bretar um bann við flugi slíkra véla innan lofthelgi þar í landi. Á þriðja tug flugfélaga hafa tilkynnt um kyrrsetningu 737 MAX 8 véla innan síns flota.

Hlutabréfaverð í Icelandair hríðféll þegar Bretar tilkynntu ákvörðun sína eftir hádegi. Þegar mest var nam lækkunin í dag rúmlega 10 prósentum en gekk svo til baka að hluta, í rúm 5 prósent. Þegar þessi frétt er skrifuð nemur lækkunin hins vegar 9 prósentum.

Fréttin hefur verið uppfærð.