Hlutabréf Icelandair lækkuðu um 3,9 prósent í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Gengi bréfanna stendur í 5,4 krónum og hefur lækkað um 43 prósent frá byrjun árs.

Icelandair lækkaði um rúm 3,4 prósent í gær í kjölfar frétta af því að Norwegian Air og JetBlue Airways myndu hefja samstarf um flug yfir Atlantshafið. Það felur í sér að viðskiptavinir geti bókað tengiflug með báðum flugfélögum á bókunarsíðum þeirra beggja. Þannig verði auðveldara að ferðast yfir hafið með lágum tilkostnaði.

Þá var nýlega greint frá því að bandaríska flugfélagið Southwest Airlines hefði frestað áætlunum sínum um það hvernig Max-vélar félagsins taka aftur á loft. Var dagsetningunni breytt úr 5. janúar í 8. febrúar á næsta ári. Áætlanir Icelandair gera ráð fyrir að vélarnar taki á loft í byrjun næsta árs.