Innlent

Icelandair lækkar í kjölfar viðtals við Skúla

Hlutabréf í Icelandair Group hafa lækkað um ríflega þrjú prósent í verði í dag. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um eitt prósent.

Hlutabréf í Icelandair Group hafa hækkað mest allra félaga í Kauphöllinni í dag. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hlutabréf í Icelandair Group hafa lækkað mest allra skráðra félaga í verði í Kauphöllinni í dag en hlutabréfaverð ferðaþjónustufélagsins hafði í hádeginu fallið um ríflega 3,1 prósent í tæplega 90 milljóna króna viðskiptum.

Lækkunina má, að sögn viðmælanda Fréttablaðsins á fjármálamarkaði, rekja til viðtals við Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, sem birtist í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í dag en þar segist Skúli hafa fulla trú á að fyrirhugað skuldabréfaútboð flugfélagsins upp á jafnvirði sex til tólf milljarða króna klárist.

Forstjórinn segir auk þess í viðtalinu að ekki þurfi að auka hlutafé flugfélagsins, sem er helsti keppinautur Icelandair Group, til að bæta eiginfjárstöðuna áður en ráðist verður í útboðið. Eiginfjárhlutfall félagsins muni batna verulega á seinni árshelmingi en útlit sé fyrir að rekstrarhagnaður verði þá um þrír milljarðar króna og aukist um 159 prósent á milli ára.

„Núna er þriðji ársfjórðungur hálfnaður sem er sögulega alltaf besti fjórðungur ársins og við sjáum það nú þegar miðað við afkomuna í júlí og bókunarstöðuna í ágúst og september að þriðji fjórðungur á þessu ári verður næstbesti ársfjórðungur í sögu félagsins og því teljum við afkomuspána fyrir seinni hluta ársins í takt við væntingar okkar,“ nefnir Skúli.

Rekstrarumhverfi íslensku flugfélaganna hefur sem kunnugt er versnað til muna að undanförnu, einkum vegna mikillar samkeppni og hækkandi olíuverðs, og hefur það meðal annars birst í lækkandi hlutabréfaverði Icelandair Group. Hafa hlutabréf í ferðaþjónustufyrirtækinu lækkað um 37 prósent það sem af er árinu.

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hafði lækkað um 1,1 prósent við hádegi í dag. Fyrir utan Icelandair Group hafa Reginn, Origo og Eimskip lækkað hvað mest í verði. Skeljungur hefur hækkað mest skráðra félaga eða um 1,4 prósent við hádegi en hlutabréf í olíufélagsinu ruku upp um 8,6 prósent í verði í gær eftir að stjórnendur þess hækkuðu afkomuspá fyrir árið um tíu prósent.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Vara við við­skiptum við eist­neskt fyrir­tæki

Innlent

Heilbrigði verður að vera smá nautn

Innlent

Hagnaður TM dróst saman um 78 prósent

Auglýsing

Nýjast

Afkoma af fjárfestingum Sjóvár undir væntingum

Sakfelldir í Icelandair-innherjamáli

Heimilin halda að sér höndum

Skotsilfur: Ofsinn

Magnús Óli endurkjörinn formaður FA

Seldi Íslendingum fasteignir á Spáni fyrir 1,2 milljarða

Auglýsing