Sumaráætlun Icelandair er komin í sölu og hafa fjórir áfangastaðir bæst við leiðakerfið. Þetta eru Róm, Nice, Alicante og Montreal. Félagið flýgur til 43 áfangastaða í millilandaflugi sumarið 2022, að því er segir í tilkynningu fyrirtækisins.
Róm og Nice bætast í dag við sem nýir áfangastaðir í leiðakerfinu en til viðbótar var Montreal nýverið bætt við á ný. Þá færist Alicante nú yfir í leiðakerfi Icelandair, en félagið hefur hingað til flogið til Alicante í leiguflugi.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningunni að fyrirtækið hafi verið að byggja starfsemi sína upp aftur jafnt og þétt á sama tíma og það hafi þurft að aðlaga sig að aðstæðum hverju sinni.
„Sumaráætlun okkar liggur nú fyrir þar sem við erum með erum með 43 áfangastaði þar á meðal nýja og spennandi staði sem eru Róm og Nice. Þá er ánægjulegt að færa Alicante inn í leiðakerfið á sama hátt og við gerðum með Tenerife á síðasta ári sem hefur verið gríðarlega vel tekið,“ segir hann.
Hér að neðan má sjá sumaráætlun Icelandair:
Róm
Flugtímabil: 6. júlí til 4. september. Flogið tvisvar í viku á miðvikudögum og sunnudögum.
Nice
Flugtímabil: 6. júlí til 27. ágúst. Flogið tvisvar í viku á miðvikudögum og laugardögum.
Montreal
Flugtímabil: 24. júní til 25. september. Flogið þrisvar í viku á miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum.
Alicante
Flugtímabil: fram til loka október. Flogið einu sinni til tvisvar í viku á fimmtudögum og sunnudögum.
43 áfangastaðir í Evrópu og Norður-Ameríku
Icelandair flýgur samtals til 43 áfangastaða í millilandaflugi sumarið 2022. Þar af eru 29 áfangastaðir í Evrópu og 14 áfangastaðir í Norður-Ameríku.
Heilsársáfangastaðir: Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, Oslo, Helsinki, Amsterdam, París, Berlín, Frankfurt, Munchen, Zurich, London, Glasgow, Manchester, Dublin, Boston, New York, Seattle, Washington, Denver, Chicago, Toronto, Tenerife, Nuuk og Kulusuk.
Árstíðabundnir áfangastaðir: Róm, Nice, Montreal, Alicante, Raleigh-Durham, Bergen, Billund, Hamborg, Genf, Brussel, Minneapolis, Vancouver, Portland, Anchorage, Baltimore, Mílanó, Madrid, Salzburg, Orlando, Ilulissat og Narsarsuaq.