Icelandair Hotels töpuðu 757 milljónum króna fyrir skatta árið 2019. Árið áður hagnaðist samstæðan um 240 milljónir króna. Tapið í fyrra skýrist af auknum afskriftum og fjármagnskostnaði. Í fyrra voru leigueignir afskrifaðar fyrir 1,6 milljarða króna. Auk þess jukust fjármagnsgjöld í 1,2 milljarða króna en voru 156 milljónir króna árið áður.

Samstæðan færði árið 2019 í fyrsta sinn leiguskuldir í efnahagsreikning og á móti leigueign í samræmi við reikningsskilastaðalinn IFRS 16. Hefði samstæðan ekki gert upp eftir IFRS 16 hefði tapið fyrir skatta numið 403 milljónum króna, að því er fram kemur í ársreikningi.

Hlutafé var aukið um 3,2 milljarða króna í fyrra. Eiginfjárhlutfallið var 14 prósent við árslok. Tekjurnar stóðu í stað á milli ára og námu 12,2 milljörðum króna.

Hagnaður samstæðunnar fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta jókst á milli ára í 2,7 milljarða króna árið 2019 úr 958 milljónum króna árið áður.

Berjaya Land Ber­had, sem er skráð á hlutabréfamarkað í Malasíu, keypti 75 prósenta hlut í Icelandair Hotels af Icelandair Group. Lokagreiðslan var innt af hendi í apríl síðastliðnum og voru hlutabréfin afhent í kjölfarið. Kaupverðið var 45,3 milljónir Bandaríkjadala, eða 6,5 milljarðar króna. Efnahagshremmingar vegna COVID-19 lækkuðu kaupverðið um 18 prósent.

Stofnandi og stjórnarformaður malasíska fyrirtækisins er Vincent Tan. Hann á velska knattspyrnuliðið Cardiff sem leikur í ensku úrvalsdeildinni.

Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður, tók við sem stjórnarformaður samstæðunnar eftir kaup malasíska fyrirtækisins.