Icelandair Hotels, ein stærsta hótelkeðja landsins, hefur gengið frá samkomulagi við Arion banka um samtals 1.200 milljóna króna brúarlán en ríkissjóður ábyrgist allt að 70 prósentum af fjárhæð lánsins. Þetta er fyrsta slíka lánið, en þau eru einkum ætluð meðalstórum og stórum fyrirtækjum í rekstrarvanda vegna kórónaveirufaraldursins til að standa undir launum og öðrum almennum rekstrarkostnaði, sem hefur verið veitt af stóru viðskiptabönkunum frá því að byrjað var að bjóða upp á úrræðið fyrir um þremur mánuðum.

Tryggvi Þór Herbertsson, stjórnarformaður Icelandair Hotels, segir í samtali við Markaðinn að um sé að ræða lánalínu og að markmið félagsins sé að reyna að draga sem minnst á hana. Aðspurður segist Tryggvi Þór ekki geta tjáð sig um vaxtakjörin á láninu en viðurkennir hins vegar að þau séu ekki mjög hagstæð, þrátt fyrir að ríkisábyrgð sé á láninu að hluta og lága vexti Seðlabankans um þessar mundir.

Heildarábyrgð ríkissjóðs gagnvart bönkunum vegna brúarlána getur að hámarki orðið 50 milljarðar króna. Heildarumfang slíkra lánveitinga getur því orðið ríflega 71 milljarður króna, miðað við að ábyrgð ríkisins getur numið allt að 70 prósentum af höfuðstól láns, en hún fellur niður eftir 30 mánuði frá veitingu láns. Fram til þessa hefur hins vegar eftirspurn fyrirtækja eftir slíkum lánum hjá Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankanum og Kviku banka verið hverfandi.

Veiting brúarlána er háð ýmsum skilyrðum, meðal annars að fyrirtæki borgi ekki út arð, kaupi eigin hluti eða greiði út óumsamda kaupauka á meðan ríkisábyrgðar nýtur við. Samkvæmt heimildum Markaðarins hafa sum þessara skilyrða valdið því að eigendur félaga hafi af þeim sökum ekki viljað nýta sér þetta úrræði.

Tryggvi Þór segir að starfsemi Icelandair Hotels, sem reka fjórt­án hótel um allt land, hafi gengið vel úti á landi í sumar þar sem herbergja­nýtingin hafi verið yfir 90 prósent en verðið hafi hins vegar verið mun lægra en áður. Öðru máli gildi um hótelin í Reykjavík en þar hefur herbergjanýtingin verið afar dræm og allt útlit er fyrir erfiðan vetur. Öll hótel félagsins eru opin um þessar mundir, ef undan eru skilin Alda, Konsúlat og Marina í Reykjavík, að sögn Tryggva Þórs.

Icelandair Hotels eru í meirihlutaeigu malasísku fyrirtækjasamsteypunnar Berjaya Corporation. Félagið gekk frá kaupum á 75 prósenta hlut í hótelkeðjunni í byrjun apríl á árinu, af Icelandair Group – sem fer núna með fjórðungshlut í félaginu – en heildarkaupverð eignar­hlutarins nam 45,3 milljónum dala, jafnvirði 6,2 milljarða króna á núverandi gengi. Kaupverðið var lækkað um tíu milljónir dala frá því sem áður hafði verið samið um, vegna kórónaveirufaraldursins. Icelandair Group bókfærði engu að síður hjá sér hagnað upp á 15,4 milljónir dala vegna sölunnar, að því er fram kom í uppgjöri félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung.

Tekjur Icelandair Hotels námu 97 milljónum dala á árinu 2018 og var EBITDA hótelrekstrarins – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – á sama tíma jákvæð um sjö milljónir dala. Ársreikningur hótelkeðjunnar fyrir árið 2019 hefur ekki verið birtur.