Icelandair Hot­els braut ekki jafn­réttis­lög er fé­lagið sagði upp barns­hafandi konu þegar kórónu­veirufar­aldurinn skall á í fyrra, að mati Kæru­nefndar jafn­réttis­mála.

Í málinu var deilt um upp­sögn á með­göngu og van­goldin laun í upp­sagnar­fresti, auk þess sem gerð er at­huga­semd við endur­ráðningu fyrrum sam­starfs­manns kæranda. Konan taldi sig ekki hafa fengið greidd þau laun á upp­sagnar­fresti sem hún hafi átt rétt.

Í niður­stöðu kæru­nefndar segir að á­stæður upp­sagnarinnar hafi ekki verið þær að konan var þunguð. Fyrir­tækið sagði upp 308 manns, þar af af átta starfs­mönnum í sölu­deildinni sem konan vann í.

„Ekki verður séð af þeim gögnum og upp­lýsingum sem fyrir liggja í málinu að á­stæður upp­sagnarinnar hafi verið þær að kærandi hafi verið barns­hafandi. Þá er ekkert sem bendir til þess í gögnum málsins að kærði hafi látið fæðingar­or­lof eða aðrar að­stæður tengdar með­göngu hafa á­hrif á upp­sögn kæranda. Verður ekki betur séð en að öllum starfs­mönnum í deild kæranda hafi verið sagt upp á sama tíma vegna á­hrifa kórónu­veirufar­aldursins, óháð kyni eða því hvort þeir hafi verið barns­hafandi,“ segir í úr­skurði kæru­nefndar

94 prósent starfsmanna sagt upp í fyrra

Sam­kvæmt kæru­nefndinni er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að á­stæður þess að einn starfs­maður úr deild kæranda var endur­ráðinn hafi tengst með­göngu hennar eða barns­burði.

Hvað varðar ó­greiddu laun konunnar á upp­sagnar­fresti sagði nefndin að slík sé á­greiningur um upp­gjör launa og heyrir ekki undir vald­svið Kæru­nefndar Jafn­réttis­mála. Kröfunni var því vísað frá.

Icelandair Hot­els tekur fram í úr­skurðinum að fyrir­tækið telji sig hafa gert upp allar greiðslur við konuna og hafnaði því að upp­sögnin tengist á nokkurn hátt kyni hennar. Á­hrif kórónu­veirufarladurisins á fyrir­tækið hafi verið gríðar­leg en 94 prósent af 650 starfs­mönnum fé­lagsins var sagt upp á vor­mánuðum 2020.