Icelandair hefur á síðustu mánuðum ráðið og endurráðið um 800 manns í takt við fjölgun flugferða og til þess að búa sig undir aukin umsvif í sumar. Þetta segir Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Icelandair Group.

„Þegar faraldurinn skall á fyrir rúmu ári síðan þurftum við að ráðast í sársaukafullar aðgerðir til þess að verja störf til lengri tíma litið. Það er því mjög ánægjulegt að horfa nú til bjartari tíma og hefja ráðningar á ný,“ segir Elísabet í samtali við Markaðinn.

Spurð hver skipting starfanna sé segir Elísabet að megnið af störfunum sem ráðið var í séu framleiðslutengd flugstörf, svo sem flugáhafnir og störf í flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. „Það er mjög jákvætt að geta skapað störf á ný á Suðurnesjum þar sem atvinnuástandið hefur verið sérstaklega bagalegt.“

Þegar umsvif Icelandair Group voru í lágmarki í janúar voru starfsmenn samstæðunnar um 1.500 talsins og stöðugildin tæplega 1.300. Um leið og opnað var fyrir ferðalög bólusettra Bandaríkjamanna til landsins hóf Icelandair markaðssetningarherferð þar í landi sem skilaði sér í aukinni sölu á flugsætum.

„Við erum í sóknarhug,“ segir Elísabet og vísar til þess að flugferðum á vegum félagsins fjölgi í hverri viku. „Í þessari viku eru brottfarir í millilandaflugi frá Keflavík um 50 og við sjáum fyrir okkur að vera komin upp í 100 brottfarir á viku fyrir lok júní að öllu óbreyttu.“

50 brottfarir eru í þessu viku en Icelandair stefnir á 100 á viku fyrir lok júní.
Fréttablaðið/Ernir

„Áætlanir okkar eru þó að taka stöðugum breytingum í takt við aðstæður á mörkuðum okkar, ferðatakmarkanir og framgang bólusetninga. Þetta þýðir að við þurfum að vissu leyti að leika af fingrum fram þegar kemur að ráðningum sem er nauðsynlegt í núverandi ástandi til þess að verja félagið og störfin til lengri tíma. Við getum hins vegar gert ráð fyrir að vera með hátt í 2.500 starfsmenn í sumar ef staðan heldur áfram að batna,“ segir Elísabet.

Aðspurð segir hún að mikil eftirspurn sé eftir þeim störfum sem eru auglýst þessa dagana. „Við finnum fyrir miklum áhuga fólks að koma til starfa hjá okkur.“

Höfuðstöðvar fyrir breytta tíma

Í lok síðasta árs tilkynnti Icelandair Group að félagið hefði selt höfuðstöðvar sínar að Nauthólsvegi til fasteignafélagsins Reita fyrir 2,3 milljarða króna. Húsnæðið verður leigt af Reitum til ársloka 2023 en þá hyggst flugfélagið flytja höfuðstöðvar sínar á Flugvelli í Hafnarfirði. Þar hefur hluti starfseminnar verið en til stendur að stækka húsnæðið fyrir sameininguna.

„Eins og mörg önnur fyrirtæki höfum við gengið í gegnum miklar breytingar á vinnuvenjum á síðasta eina og hálfa árinu. Og þær eru að miklu leyti komnar til að vera. Starfsfólk vill áfram sveigjanleikann sem fylgir því að geta bæði unnið að heiman og á skrifstofunni,“ segir Elísabet.

„Það er auðvitað einstakt tækifæri að fá að hanna nýjar höfuðstöðvar á þessum tímum í takt við breyttar áherslur og mæta þörfum okkar fjölbreytta hóps. Við munum nýta tímann vel næstu mánuði í þarfagreiningu, kalla eftir virkri þátttöku starfsmanna og skapa enn sterkari og skemmtilegri vinnustað til framtíðar,“ bætir hún við.