Tölu­verður sam­dráttur hefur verið í flugi vegna hertra ferða­tak­markana á landa­mærum hér á landi sem tóku gildi seinni­partinn í ágúst. Til að bregðast við þessari stöðu og á­fram­haldandi ó­vissu hefur Icelandair Group því miður þurft að segja 88 starfs­mönnum upp störfum frá og með 1. októ­ber nk. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Icelandair.

„Stærstur hluti þess hóps eru flug­menn eða 68 ein­staklingar en þar að auki er um að ræða 20 starfs­menn af ýmsum sviðum fyrir­tækisins. Enn­fremur ljúka nokkrir tugir starfs­manna sem voru á tíma­bundnum ráðningar­samningum störfum nú um mánaða­mótin,“ segir í til­kynningunni.

Ljóst er að fé­lagið stendur frammi fyrir á­fram­haldandi ó­vissu vegna kórónu­veirufar­aldursins, segir í tilkynningunni. Í kjöl­far vel heppnaðs hluta­fjár­út­boðs er fé­lagið hins vegar vel í stakk búið til að komast í gegnum þá ó­vissu sem fram­undan er og jafn­framt bregðast hratt við um leið og að­stæður leyfa. Fé­lagið vonast til að hægt verði að draga upp­sagnir til baka um leið og á­standið batnar og eftir­spurn eftir flugi tekur við sér á ný.