Hlutabréf í Icelandair Group ruku upp um meira en 26 prósent í verði í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í morgun eftir að stjórn flugfélagsins samþykkti í gærkvöldi að hefja viðræður við forsvarsmenn WOW air um aðkomu að rekstri síðarnefnda flugfélagsins.

Gengið stóð í 8,6 krónum á hlut eftir lokun markaða síðdegis í gær en fór yfir 10,8 krónur á hlut í fyrstu viðskiptum í morgun. Mikil velta hefur verið með hlutabréf flugfélagsins eftir að markaðir opnuðu.

Þá hækkaði úrvalsvísitala Kauphallarinnar um 0,6 prósent í fyrstu viðskiptum dagsins.

Rétt fyrir opnun markaða greindi Kauphöllin frá því að hlutabréf í félaginu hefði hlotið athugunarmerkingu með vísan til ákvæðis 8.2 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga.

 Í ákvæðinu kemur fram að Kauphöllin geti ákveðið að athugunarmerkja fjármálagerninga viðkomandi útgefanda tímabundið ef aðstæður eru fyrir hendi sem leiða af sér umtalsverða óvissu varðandi útgefandann eða verðmyndun fjármálagerninganna.

Frétt Fréttablaðsins: Icelandair Group hefur viðræður við WOW air

Í tilkynningunni sem Icelandair Group sendi frá sér í gærkvöldi var tekið fram að stefnt væri að því að ljúka viðræðunum, sem færu fram í samráði við stjórnvöld, fyrir mánudaginn næsta. Ef af yrði myndi aðkoma Icelandair Group byggja á sjónarmiði samkeppnisréttar um „fyrirtæki á fallandi fæti“.

Tilkynning Icelandair Group kom í kjölfar þess að WOW air greindi frá því á fjárfestavef félagsins að Indigo Partners hefði slitið viðræðum um kaup á stórum hlut í lággjaldaflugfélaginu. Þær viðræður höfðu staðið yfir frá 29. nóvember á síðasta ári.

Ríkisstjórnin sendi auk þess frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem hún sagðist binda vonir við að viðræður Icelandair Group og WOW myndu skila farsælli niðurstöðu.

„Eigendur WOW air hafa um nokkurra mánaða skeið leitað leiða til að tryggja rekstur félagsins og hafa átt viðræður við fjárfesta, flugrekendur og aðra haghafa. Hingað til hafa þær viðræður ekki skilað þeim árangri sem eigandi félagsins stefndi að. Ríkisstjórnin mun áfram fylgjast grannt með framvindunni og bindur vonir við að viðræður félaganna muni skila farsælli niðurstöðu,“ sagði í tilkynningu stjórnvalda.