Ás­dís Ýr Péturs­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi Icelandair, segir að erfitt sé að spá um hvaða á­hrif kyrr­setning Boeing MAX 8 vélanna þar til í desember myndi hafa á starf­semi Icelandair.

Icelandair til­kynnti í lok maí að þau geri ráð fyrir því að MAX 8 vélarnar verði aftur komnar í þeirra flug­á­ætlun í septem­ber á þessu ári. Ás­dís segir í svari við fyrir­spurn Frétta­blaðsins að þau vinni enn eftir þeirri tíma­línu sem gefin var út í maí.

Yfir­maður hjá banda­rískum flug­mála­yfir­völdum greindi frá því í gær á ráð­stefnu að hann telji ekki lík­legt að vélarnar verði aftur flug­hæfar þar til í desember.

Icelandair festi sér á sínum tíma sex­tán 737 MAX vélar frá Boeing. Þrjár voru teknar í notkun í fyrra, sex átti að af­henda í ár, fimm á næsta ári og loks tvær 2021. Kaupin voru kölluð ein stærstu við­skipti Ís­lands­sögunnar.