Icelandair gekk frá öðru sam­komu­lagi við banda­ríska flug­véla­fram­leiðandann Boeing um bætur fyrir hluta þess tjóns sem fé­lagið hefur orðið fyrir vegna kyrr­setningar MAX véla, til við­bótar við það sam­kmulag sem fé­lagið gerði við fram­leiðandann í þriðja árs­fjórðungi. Þetta kemur fram í til­kynningu frá fé­laginu vegna þriðja ár­fjórðungs.

„Góður árangur hefur náðst í rekstri Icelandair Group, þrátt fyrir að upp­gjör fjórðungsins hafi litast veru­lega af á­hrifum kyrr­setningar MAX vélanna. Sveigjan­leiki í leiða­kerfinu hefur gert okkur kleift að færa tíðni á milli á­fanga­staða og ein­beita okkur að því að nýta flug­flotann á arð­bærum leiðum.

Við höfum lagt á­herslu á ferða­manna­markaðinn til Ís­lands að undan­förnu til að mæta mikilli eftir­spurn og munum halda því á­fram. Ís­lensk ferða­þjónusta hefur notið góðs af þessari á­herslu­breytingu en við fluttum 30% fleiri far­þega til landsins yfir háanna­tímann í ár en í fyrra,“ er haft eftir Boga Nils Boga­syni for­stjóra Icelandair.

Í til­kynningunni kemur fram að tekjur Icelandair Group hafi numið 65,6 milljörðum króna eða því sem nemur 533,9 milljónum dala og lækkuðu tekjurnar um tvö prósent á mili ára.

EBIT hagnaður nam um 10 milljörðum króna (81,1 milljón dala) á þriðja árs­fjórðungi, sem er hækkun um 0,3 milljarða króna (2,8 milljónir USD) á milli ára, þrátt fyrir kyrr­setningu MAX véla. Eigið fé fé­lagsins í lok septem­ber nam um 62,2 milljörðum króna (500,9 milljónum dala).