Icelandair gaf út inneignarbréf fyrir 67,2 milljónir Bandaríkjadala á fyrstu sex mánuðum ársins eða um 9,1 milljarð króna.

Þetta kemur í nýbirtu uppgjöri flugfélagsins sem greint er frá á vef Túrista.

Líkt og flugfélög um allan heim felldi Icelandair niður gríðarlegan fjölda flugferða vegna heimsfaraldursins og var skylt að endurgreiða flugfarþegum keypta miða.

Fram kom í uppgjöri Icelandair sem birt var í gær að framboð sæta í farþegaflugi hafi dregist saman um 97% á öðrum ársfjórðungi samanborið við árið í fyrra og farþegum fækkað um 98%.

Flest flugfélög hafa brugðist við þessum erfiðu aðstæðum með því að leggja áherslu á að farþegar fái fargjöld sín endurgreidd með inneign í stað peninga til að þurrka ekki upp lausafé félagsins.

Þó má ætla að inneignirnar eigi eftir að reynast flugfélögum þungur baggi þegar þau þurfa að bera þann kostnað að flytja farþegana milli staða án þess að fá viðbótar tekjur inn á móti.

Icelandair Group tapaði alls 12,3 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Þar af nam ein­skiptis­kostnaður vegna kórónu­veirunnar 5,9 milljörðum króna á öðrum árs­fjórðungi 2020 og 30,3 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.