Icelandair mun á næstunni ferja á annað þúsund armenskra og bandarískra ríkisborgara til síns heima í og við Los Angeles í Bandaríkjunum og í Yerevan í Armeníu. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Icelandair.

„Farþegarnir hafa verið strandaglópar vegna Covid-19 heimfaraldursins en hafa nú fengið heimild og tækifæri til að snúa til síns heima,“ segir í tilkynningunni.

Fyrsta flugið verður 11.júlí frá Yerevan og flogið verður til baka til Los Angeles 13.júlí. Um 9-12 manns verða í hverri áhöfn, öllu jafna 2-3 flugmenn, sex flugfreyjur- og þjónar og einn flugvirki. Fjöldi flugferða liggur ekki fyrir en farþegar gætu orðið á annað þúsund. Flogið verður um Ísland.

Um milljón manns af armenskum uppruna búa í og við Los Angeles. Einna þekktasti Bandaríkjamaðurinn af armenskum uppruna er Kim Kardashian sem þekkt er fyrir framgöngu sína í raunveruleikaþáttum og sölu á ýmsum varningi undir eigin vörumerki.