Icelandair stefnir að því að auka fjölda áfangastaða og tíðni flugferða yfir hátíðarnar miðað við það sem verið hefur undanfarnar vikur. Jólaáætlun félagsins er komin í sölu og miðast tímabilið við 16. desember til 10. janúar 2021.
Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að gripið sé til þessara ráðstafana í ljósi þess að margir Íslendingar búi erlendis sem kjósi að koma heim yfir jól og áramót. Bent er á að yfirvöld mæli með því að fólk komi heim í síðasta lagi 18. desember til þess að sleppa við sóttkví á aðfangadag.
Í Evrópu stefnir félagið að því að fljúga til og frá Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, Amsterdam, London, París, Frankfurt og Berlín. Í Norður Ameríku stefnir félagið á flug til og frá Boston, New York og Seattle.
Vegna Covid-19 faraldursins hefur flugáætlun allra flugfélaga í heiminum raskast verulega. Icelandair hefur á undanförnum vikum og mánuðum lagt áherslu á að koma farþegum sem ætla sér að ferðast á áfangastað, ýmist með breytingu á flugi eða í gegnum önnur flugfélög, án auka kostnaðar. Farþegum hefur einnig staðið til boða að breyta flugi sínu hvenær sem er án breytingagjalds.
Þá segist félagið munu leggja allt kapp á að koma farþegum á áfangastað fyrir jól og áramót. Aðstæður eru þó sagðar síbreytilegar á mörkuðum félagsins og fari svo að einstaka flug verði fellt niður, verður það tilkynnt með góðum fyrirvara og Icelandair mun leysa úr málum farþega, að því er fullyrt er í tilkynningunni.
„Við finnum fyrir auknum áhuga á flugi yfir hátíðirnar, fyrst og fremst frá Íslendingum sem vilja komast heim og verja jólum og áramótum með sínum nánustu. Það er mikilvægt hlutverk okkar að tryggja góðar samgöngur til og frá landinu og við ætlum að mæta þessari eftirspurn með því að bjóða fleiri áfangastaði og aukna tíðni en við höfum getað boðið upp á undanfarnar vikur.
Fari svo að einhverjar breytingar verði á flugáætluninni munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma farþegum okkar á sinn áfangastað,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra félagsins í tilkynningunni.