Icelandair stefnir að því að auka fjölda áfanga­staða og tíðni flug­ferða yfir há­tíðarnar miðað við það sem verið hefur undan­farnar vikur. Jóla­á­ætlun fé­lagsins er komin í sölu og miðast tíma­bilið við 16. desember til 10. janúar 2021.

Þetta kemur fram í til­kynningu. Þar segir að gripið sé til þessara ráð­stafana í ljósi þess að margir Ís­lendingar búi er­lendis sem kjósi að koma heim yfir jól og ára­mót. Bent er á að yfir­völd mæli með því að fólk komi heim í síðasta lagi 18. desember til þess að sleppa við sótt­kví á að­fanga­dag.

Í Evrópu stefnir fé­lagið að því að fljúga til og frá Kaup­manna­höfn, Osló, Stokk­hólmi, Amsterdam, London, París, Frankfurt og Ber­lín. Í Norður Ameríku stefnir fé­lagið á flug til og frá Boston, New York og Seatt­le.

Vegna Co­vid-19 far­aldursins hefur flug­á­ætlun allra flug­fé­laga í heiminum raskast veru­lega. Icelandair hefur á undan­förnum vikum og mánuðum lagt á­herslu á að koma far­þegum sem ætla sér að ferðast á á­fanga­stað, ýmist með breytingu á flugi eða í gegnum önnur flug­fé­lög, án auka kostnaðar. Far­þegum hefur einnig staðið til boða að breyta flugi sínu hve­nær sem er án breytinga­gjalds.

Þá segist fé­lagið munu leggja allt kapp á að koma far­þegum á á­fanga­stað fyrir jól og ára­mót. Að­stæður eru þó sagðar sí­breyti­legar á mörkuðum fé­lagsins og fari svo að ein­staka flug verði fellt niður, verður það til­kynnt með góðum fyrir­vara og Icelandair mun leysa úr málum far­þega, að því er full­yrt er í til­kynningunni.

„Við finnum fyrir auknum á­huga á flugi yfir há­tíðirnar, fyrst og fremst frá Ís­lendingum sem vilja komast heim og verja jólum og ára­mótum með sínum nánustu. Það er mikil­vægt hlut­verk okkar að tryggja góðar sam­göngur til og frá landinu og við ætlum að mæta þessari eftir­spurn með því að bjóða fleiri á­fanga­staði og aukna tíðni en við höfum getað boðið upp á undan­farnar vikur.

Fari svo að ein­hverjar breytingar verði á flug­á­ætluninni munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma far­þegum okkar á sinn á­fanga­stað,“ er haft eftir Boga Nils Boga­syni, for­stjóra fé­lagsins í til­kynningunni.